151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[22:01]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, við getum alveg verið sammála um það að við viljum náttúrlega fá arð af öllum okkar auðlindum en sumar auðlindir eru rótgrónari en aðrar og víðtækari reynsla komin á þær. Við erum alltaf að kynnast einhverju nýju hvað það varðar og bara til lánsins duttum við í lukkupottinn á sínum tíma, eftir skellinn og það mikla efnahagshrun 2008, og hingað sigldi ekki bara makríllinn inn í lögsögu okkar, akkúrat fiskur, sem aldrei fyrr heldur flæddu hingað inn ferðamann eins og enginn væri morgundagurinn. Og það var náttúrlega það mikið að við erum í rauninni hálfvegis á hliðinni í þessum Covid-faraldri vegna þess að þeir geta ekki komið og heimsótt okkur. Við bíðum því spennt eftir að þeim ósköpum ljúki.

En ég er ekki sátt við að það skuli ekki vera tekið fram að við viljum fá fullt verð fyrir aðgang að auðlindinni. Mér væri nákvæmlega sama þótt sagt yrði öllum auðlindum. En það yrði náttúrlega að taka tillit til þess að við hliðina á því stæði sjálfbærni. Þær verða að vera sjálfbærar og þannig verður það að reiknast út. En það yrði hér á þessu háa Alþingi sem regluverkið yrði smíðað um hvernig það yrði og gert í sátt við þjóðina. Við vitum að þjóðinni hefur líka oft fundist að hún sé hlunnfarin. Hún horfir upp á það hvernig hefur verið farið með arðinn af sjávarauðlindinni, hvernig hann hefur flætt bara út um allan heim, hvernig íslenska þjóðin er búin að fjárfesta úti um allan heim vegna þess að ákveðnir aðilar hafa haft mjög víðtækan aðgang að sjávarauðlindinni okkar. Við hefðum viljað fá að vera með í þessu partíi. Það er bara þannig. (Gripið fram í: Og í orkunni.) Svo ég tali nú ekki um það.