151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

hækkun taxta í sjúkraþjálfun.

[13:01]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Án sjúkraþjálfunar stæði ég sennilega ekki í þessari pontu í dag að halda þessa ræðu. Þess vegna er mér spurn hvers vegna í ósköpunum hæstv. heilbrigðisráðherra þjarmar svo illa að sjúkraþjálfun í landinu að ég fæ tölvupóst eftir tölvupóst þar sem fólk bendir á að það sé ekki bara búið að hækka kostnaðinn um 500 kr., sem það þarf að borga sjálft fyrir hvern tíma aukalega, heldur hafi verð aftur verið hækkað um 500 kr. um áramótin. Það eru þá 1.000 kr. fyrir hvern tíma. Fólk sem er þrisvar sinnum í viku hjá sjúkraþjálfara þarf að borga 3.000 kr. aukalega, 12.000 kr. á mánuði. Þetta er fólk sem hefur ekki einu sinni efni á því að borga það. Og hvað gerir þetta fólk? Jú, það segir að það þurfi að skera niður ferðir til sjúkraþjálfara, að í stað þess að fara í þrjá tíma á viku fari það í einn tíma. Hvaða afleiðingar hefur það? Ég get alveg upplýst um það. Það hefur þær afleiðingar að viðkomandi leggst annaðhvort í rúmið, þarf að taka meira af verkjatöflum eða lendir hreinlega inni á sjúkrastofnun. Hvað kostar sólarhringurinn þar? 100.000–200.000 kr.?

Hvernig í ósköpunum ætlum við að leyfa okkur að gera þetta í miðjum Covid-faraldri? Síðan eru gífurlegir biðlistar eftir að komast í sjúkraliðanám, alveg gífurlegir biðlistar. Á sama tíma á að þrengja svo að stéttinni að nýliðun getur ekki orðið fyrr en eftir tvö ár. Hvernig í ósköpunum sér heilbrigðisráðherra fyrir sér að einhver sjúkraþjálfari taki nema í þjálfun og þegar búið er að þjálfa hann þá má hann ekki vinna hjá þeim í tvö ár? Þetta mun bitna einna mest á þjónustu á landsbyggðinni. Hvers vegna í ósköpunum er þetta svona og hvað ætlar heilbrigðisráðherra að gera í þessu máli?