151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

hækkun taxta í sjúkraþjálfun.

[13:06]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin. Ég vona líka heitt og innilega að hún taki til endurskoðunar regluna um að fólk geti komið í sex tíma til sjúkraþjálfara án þess að leita til heimilislæknis. Það skiptir gífurlega miklu máli og það léttir álag á heilsugæsluna og skriffinnsku og annað. Það hefur sýnt sig að það skilar sér. Ég veit af reynslu þeirra sem ég hef talað við að það skilar sér. Það er mun ódýrari leið en hin, að láta alla ná í beiðni.

Félag sjúkraþjálfara segir að nýjasta reglugerðin um að þeir megi ekki vinna sjálfstætt fyrr en eftir tvö ár standist ekki lög. Reglugerðin var sett 20. desember og þeir hafa ekki fengið neitt um það að segja. Þeir segja að ekki hafi verið nema einn samningafundur. Stendur til að bretta upp ermar og sjá til þess að samið verði? (Forseti hringir.) Er það ekki eina leiðin til þess að þeir sem þurfa á þessari þjónustu að halda geti verið öruggir um að þeir fái hana áfram að fullu en ekki bara einn tíma af hverjum þremur?