151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

samskipti Íslands og Bandaríkjanna eftir valdaskiptin 20. janúar sl.

[13:54]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það er ágætt að taka þessa umræðu. Ég þakka fyrir hana og fyrir ágætisinnlegg frá hæstv. utanríkisráðherra. Það er ljóst að valdajafnvægi heimsins hefur breyst á undanförnum árum. Í valdatíð Trumps versnaði staða Bandaríkjanna á ótal vegu og Bandaríkjamenn misstu mikið af sínu mjúka valdi. Þeir veiktu alþjóðakerfið, þeir grófu undan mörgum alþjóðastofnunum á borð við UNESCO, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og Parísarsáttmálann og fleira. Kannski var eina staðan sem skánaði að einhverju leyti þegar Ísland steig inn í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna. Það var ágætisskref sem ég þakka mikið fyrir.

Ljóst er að stjórn Bidens hefur sýnt mikið frumkvæði og vilja til að bæta úr hlutunum og það er mikilvægt að samskipti Íslands og Bandaríkjanna á næstu árum endurspegli þau sameiginlegu markmið sem við höfum. Það er ljóst að smáríki hafa mjög takmarkað vægi gagnvart svona risaþjóðum og að búa til áhuga stórþjóðanna á sér, en þar sem sameiginlegur áhugi á málaflokkum er til staðar er hægt að koma Íslandi vel fyrir í umræðunni sem mikilvægum og traustum samstarfsaðila. Þar er t.d. hægt að nefna norðurskautsmál og umhverfismál, og það var ágætt sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi hér um jafnréttismálin. Og svo mætti auðvitað nefna friðarmál í heiminum.

Gleymum því samt ekki að valdajafnvægið hefur breyst. Það er ástæða til að krefjast þess að Bandaríkin sanni sig að nýju en gangi ekki að fyrri hlutverkum sem sjálfgefnum. Þó svo að ný stjórn sýni vissulega viðleitni þá eru bara svo mörg stór verkefni fram undan. Ef við látum eins og (Forseti hringir.) allt sé eins og það var áður munum við örugglega ekki ná jafn góðum árangri og annars væri.