151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

samskipti Íslands og Bandaríkjanna eftir valdaskiptin 20. janúar sl.

[14:01]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu, en ég skal alveg viðurkenna að mér finnst hún aðeins of snemma á ferðinni. Ég myndi segja að Joe Biden mætti fá að taka af sér hálfíslensku ullarvettlingana og vera aðeins í embættinu áður en við förum að spá í hvað hann ætlar að gera á Íslandi. Ég tel að hann hafi mikið meira en nóg að gera heima með Covid grasserandi, umhverfismál og annað sem þar dynur á. Ég held að hann sé ekki mikið að hugsa um litla Ísland eins og er. En hann er kominn til valda og ég vona heitt og innilega að það verði Bandaríkjamönnum til góðs og þar af leiðandi líka öllum heiminum. Þeir voru, eins og hefur komið fram, komnir út úr Parísarsamkomulaginu og Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og þetta eru mjög mikilvæg mál sem þarf að taka á. Ég vona heitt og innilega að það verði á döfinni. Það sem viðkemur Íslandi er auðvitað norðurskautið og það kapphlaup sem er byrjað þar á milli Kína, Rússlands og Bandaríkjanna. Það held ég að verði ekki leyst en þarf að fara í og sjá til hvað skeður vegna þess að sennilega, eins og staðan er í dag, og miðað við það sem flestir segja, erum við á síðasta snúning út frá umhverfissjónarmiði að bjarga því sem bjargað verður. Ég vona innilega að forsetaskiptin í Bandaríkjunum verði til þess að þessi mál, sérstaklega umhverfismál, verði tekin föstum tökum.