151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

samskipti Íslands og Bandaríkjanna eftir valdaskiptin 20. janúar sl.

[14:08]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu. Hún er að sjálfsögðu mikilvæg. Utanríkisráðherra hæstv. skrifar grein í Morgunblaðið í dag sem ber heitið „Alþjóðamálin varða okkur öll“. Það er rétt hjá ráðherra, alþjóðamálin skipta þjóð eins og Íslendinga miklu máli. Við eigum mikið undir utanríkisviðskiptum og varnarsamstarfi. Rödd okkar á að heyrast á alþjóðavettvangi, sérstaklega á þeim sviðum þar sem við eigum hvað mesta möguleika á að geta látið gott af okkur leiða. Að mínum dómi er það á sviði friðarmála. Þó svo að við sem lítið land og í raun örríki í samfélagi þjóðanna erum við stórt land þegar kemur að friðarmálum á alþjóðavettvangi. Snýr það fyrst og fremst að því að við njótum trausts meðal annarra þjóða. Það hefur framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna staðfest. Við höfum ekki her og við stundum ekki vopnaframleiðslu. Í því felast mikil tækifæri vegna þess að traust er lykillinn að árangri í því að miðla málum til friðar.

En þessi umræða hér snýr sérstaklega að samstarfi okkar við Bandaríkin. Ráðherra segir í áðurnefndri grein að hann hafi lagt höfuðáherslu á að styrkja tengslin vestur um haf í ráðherratíð sinni. En hefur ríkisstjórnin gert það á kjörtímabilinu? Ég er ekki alveg viss um að svo sé. Vandræðagangurinn hjá ríkisstjórninni þegar varaforseti Bandaríkjanna sótti okkur heim í september 2019 var ekki til fyrirmyndar. Var það vegna þess að ríkisstjórninni líkaði ekki við þáverandi valdhafa í Washington? Það er ekki hægt að álykta á annan veg. Bandaríkin eru okkar helsta vinaþjóð, ríki sem við eigum mikilvægan varnarsamning við og varnarsamstarf. Samstarfið við okkar helsta bandalagsríki, Bandaríkin, má aldrei litast af því að ráðherrum í ríkisstjórn Íslands líki ekki við þjóðarleiðtogann eða stefnu hans. Það eru íslenskir hagsmunir sem skipta hér öllu máli. Fráfarandi Bandaríkjaforseti, Donald Trump, er fyrsti forsetinn sem haft hefur frumkvæði að því að gerður yrði fríverslunarsamningur milli Bandaríkjanna og Íslands. (Forseti hringir.) Lítið fór fyrir viðbrögðum Íslands við þessari jákvæðu yfirlýsingu Bandaríkjaforseta í okkar garð. (Forseti hringir.) Ágætt væri að hæstv. ráðherra gerði grein fyrir því hvað íslensk stjórnvöld (Forseti hringir.) gerðu í framhaldinu til þess að þetta yrði að veruleika. (Forseti hringir.)

Herra forseti. (Forseti hringir.) Ég óska nýkjörnum Bandaríkjaforseta til hamingju með kjörið (Forseti hringir.) og velfarnaðar í starfi.

(Forseti (BN): Forseti vill minna þingmenn á það að þegar hann hringir bjöllunni hefur það þýðingu.)