151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

samskipti Íslands og Bandaríkjanna eftir valdaskiptin 20. janúar sl.

[14:13]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú hefur lengi verið stefnan hjá Bandaríkjunum að setja ekki of mikinn fókus á fríverslunarsamninga við önnur lönd. NAFTA-samningurinn skiptir auðvitað miklu máli en þess utan er þetta frekar þunnt hjá þeim. Þetta eru yfirleitt mjög sértækir samningar frekar en almennir. En engu að síður er ástæða til að velta því fyrir sér hvort Ísland geti, annaðhvort tvíhliða eða á vettvangi EFTA, sóst eftir einhvers konar fríverslunarsamningi við Bandaríkin á næstu árum. Þetta þyrfti líklegast að vera sett í samhengi við einhverjar aðrar aðgerðir, t.d. umhverfisvernd og álíka. En þarna er eftir miklu að slægjast fyrir okkur þannig að ég vil endilega hvetja til þess.

En tölum aðeins um umhverfismálin. Ég nefndi í fyrri ræðu að alþjóðleg leiðtogastaða Bandaríkjanna hafi fallið svolítið á síðustu árum og það eru mörg lönd að koma inn. Sumar kenningar í alþjóðafræðunum telja að það geti orðið margpóla heimur þar sem fleiri lönd stíga fram og deila höfuðábyrgðinni, frekar en að það sé eitt stórt ríki sem hafi ákveðið yfirburðavald í heiminum. En þessi alþjóðlega leiðtogastaða er ekki eitthvað sem lönd fá ókeypis. Þau fá hana með því að stunda mjög víðtæka og opna utanríkisstefnu. Það eru mörg lönd að reyna að fara þá leið í dag og við eigum auðvitað að fagna því og nýta okkur það, sem það smáríki sem við erum, til að reyna að koma áfram góðum breytingum. Umhverfismálin eru þar lykilatriði vegna þess að við vitum að Bandaríkin eru eitt stærsta mengunarland heims, Kína er annað, og öll stór lönd hafa rosalega mikið vægi í loftslagsbreytingum. (Forseti hringir.) Ef við getum unnið saman að því að og jafnvel att þessum löndum saman til að keppa að betri niðurstöðu, þá er það jákvætt.