151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

umræður um utanríkismál.

[14:31]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að umræða um utanríkismál skuli verða jafn gefandi og mikil og jafnvel meiri undir þessum dagskrárlið, um fundarstjórn forseta. En mig langaði bara að taka undir það sem fram hefur komið fram hjá öllum þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað um að ræðutíminn mætti auðvitað vera lengri þótt ég sé ekki endilega að kalla eftir mjög löngum ræðum, það er ekki samasemmerki á milli langra ræðna og innihalds í þeim. Ég held að ég sé ekki að ljóstra upp neinu leyndarmáli þegar ég segi aðeins frá því að ég sit í nefnd forseta Alþingis þar sem verið er að ræða um breytt fyrirkomulag á alþjóðastarfi. Eitt af því sem ég hef lagt til í þeim efnum er að umræðu um þær skýrslur sem hér eru á dagskrá, þar sem tekinn er einn dagur fyrir umræðu um alþjóðastarf þingmanna, verði dreift miklu frekar en að taka heilan dag sérstaklega undir hana. Kannski yrði það til þess fallið að gefa öðrum þingmönnum sem ekki taka þátt í alþjóðastarfinu meira færi á að taka þátt í umræðunum, (Forseti hringir.) þar sem við fengjum að njóta viðveru þeirra og þá fleiri en þeirra sem taka sérstaklega þátt í alþjóðastarfi þingsins.