151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

utanríkisviðskiptastefna Íslands, munnleg skýrsla utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. - Ein umræða.

[14:39]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta tækifæri til að kynna fyrir þingheimi skýrsluna Áfram gakk! Utanríkisviðskiptastefna Íslands. Hún markar tímamót en þetta er í fyrsta skipti sem fjallað er um á einum stað alla þá samninga sem tengjast utanríkisviðskiptum Íslands. Þar er einnig að finna upplýsingar um áhrif heimsfaraldursins á alþjóðaviðskipti og hvernig utanríkisþjónustan hefur lagt kapp á að takmarka áhrif af heimsfaraldrinum á íslenskan útflutning og standa vörð um íslenska hagsmuni.

Allt frá því að ég tók við embætti fyrir rúmum fjórum árum hef ég lagt allt kapp á að tryggja að íslensk fyrirtæki búi við bestu mögulegu viðskiptakjör á erlendum mörkuðum. Frelsi í alþjóðaviðskiptum skiptir einfaldlega höfuðmáli fyrir lítið opið efnahagskerfi eins og Ísland. Strax á fyrstu mánuðum í embætti lét ég greina ítarlega hvernig mætti gera utanríkisþjónustuna skilvirkari og nýta fjármuni og mannafla betur til að sinna hagsmunum Íslands. Gerðar voru margvíslegar breytingar í kjölfarið. Þar á meðal var aukin áhersla á fríverslun sem og nýtingu útflutningstækifæra, eflingu viðskiptaþjónustu og hagsmunagæslu á nýmörkuðum, að ógleymdum nýjum lögum um Íslandsstofu sem gera samstarf atvinnulífs og stjórnvalda við sókn á erlenda markaði mun markvissara.

Af hverju skyldi ég nú vera að rifja upp þær breytingar sem hafa átt sér stað frá því að ég tók við embætti utanríkisráðherra? Ástæðan er sú að ég tel að þær breytingar hafi sýnt mikilvægi sitt í hremmingum síðasta árið og að það hafi skipt miklu að búið var að innleiða þær þegar heimsfaraldurinn skall á. Utanríkisþjónustan hefur ekki látið sitt eftir liggja til að styðja við útflutningsfyrirtækin okkar. Við höfum komið á fót sérstakri viðskiptavakt þar sem fyrirtæki geta fengið aðstoð utanríkisþjónustunnar allan sólarhringinn komi upp vandamál sem brýnt er að leysa. Þá er einnig vert að nefna þjónustuborð atvinnulífsins sem sett var á fót með samningi við Íslandsstofu þar sem fyrirtæki geti á einum stað fengið upplýsingar um möguleika á stuðningi við atvinnuþróunarverkefni í þróunarlöndum og víðar.

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í skýrslunni Áfram gakk! Utanríkisviðskiptastefna Íslands eru Bandaríkin stærsta einstaka viðskiptaland okkar en stærstur hluti viðskipta Íslands er við Evrópuríki. Árið 2019 fóru yfir 80% af öllum vöruútflutningi Íslands til Evrópuríkja og um tveir þriðju hlutar alls innflutnings komu þaðan. Hlutfall vöruútflutnings til Evrópusambandsríkja, sem þá voru 28 talsins, var um 70% en ef Bretland, sem nú er ekki lengur hluti af ESB, er undanskilið lækkar hlutfallið í 60%. Bretland er þannig stærsti einstaki markaðurinn fyrir íslenskar vörur. Eins og ég hef áður vakið athygli á eru tölurnar misvísandi varðandi Holland þar sem stór hluti útflutnings okkar fer í gegnum Rotterdam og þaðan á aðra markaði, einnig utan Evrópu.

Ég vek athygli á því að í viðskiptaskýrslu eru birtar niðurstöður greiningar á áhrifum hugsanlegrar þátttöku í tollabandalagi ESB. Þar kemur fram að áhrif af aðild Íslands að tollabandalaginu hefðu í för með sér umtalsverðar breytingar á tollframkvæmd og hækkun tolla í mörgum vöruflokkum, m.a. leiddi frumáætlun tollyfirvalda í ljós að auk hækkunar meðaltolls myndi kostnaður við upptöku nýrra tollkerfa nema allt að 30 milljónum evra. Tel ég því augljóst hvar hagsmunum okkar Íslendinga er best borgið hvað varðar viðskipti við Evrópu.

Árið 2019 kom helmingur tekna Íslendinga af þjónustuútflutningi frá Evrópuríkjunum og um þrír fjórðu hlutar af innfluttri þjónustu. Bandaríkin voru þó stærsti einstaki markaðurinn fyrir íslenska þjónustu árið 2019 eða um 30%, en Bretland var sá næststærsti með 12%.

Í skýrslunni er að finna ítarlega umfjöllun um Alþjóðaviðskiptastofnunina, WTO, og mikilvægi alþjóðaviðskiptakerfisins fyrir þjóðir eins og Ísland sem reiða sig í svo miklum mæli á utanríkisviðskipti. Alþjóðaviðskiptakerfið hefur verið byggt upp á mörgum áratugum með afnámi viðskiptahindrana á borð við tollmúra og tæknilegra viðskiptahindrana, komið á auknu gagnsæi og ýmsum öðrum úrbótum. Slíkt regluverk er afar mikilvægt fyrir minni ríki þar sem það takmarkar möguleika stærri ríkja til að neyta aflsmunar í viðskiptum. Síðustu misseri hafa blikur verið á lofti og það kerfi sem komið hefur verið á innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, til að taka upp og leysa úr ágreiningi, verið í uppnámi. Ísland er í hópi þeirra ríkja sem berjast gegn verndarhyggju fyrir frjálsum viðskiptum og standa vörð um alþjóðaviðskiptakerfið. Þá hefur Ísland einnig verið í fararbroddi við að setja á dagskrá WTO umræðu um stöðu kvenna í alþjóðaviðskiptum.

Ekki er langt síðan við fögnuðum aldarfjórðungsafmæli EES-samningsins sem er víðtækasti og dýpsti fríverslunarsamningurinn sem Ísland á aðild að. Óheftur aðgangur að þessum kjölfestumarkaði okkar, innri markaði Evrópu, veitir stöðugleika í utanríkisviðskiptum og skapar um leið svigrúm og frelsi til að afla nýrra markaða fyrir vörur okkar og þjónustu. Í skýrslunni er greint frá því hver nýting tollkvóta í landbúnaði hefur verið. Árið 2019 voru innflutningskvótar ESB til Íslands fullnýttir en útflutningskvótar Íslands til ESB ekki nýttir nema að hluta. Um 57% af tollkvóta kindakjöts voru nýtt, en rúmlega helmingur fór til Bretlands eða 36% af heildarkvóta. Þá fer stór hluti af skyri og ostum sem flutt er til ESB í gegnum Rotterdam og þaðan á markaði sem eru fyrir utan ESB og teljast því ekki fullnýttur kvóti. Ég hef í ljósi þess óskað eftir viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að leiðrétta þetta ójafnvægi.

Skýrslan fjallar einnig ítarlega um fríverslunarsamninga EFTA og Íslands sem tryggja íslenskum útflutningi betri aðgang að fjölda markaða um allan heim. Í heildina ná fríverslunarsamningar Íslands til 74 ríkja og landsvæða og tæplega 3,2 milljarða manna. Þar af bíða þrír samningar EFTA gildistöku. Það er samningurinn við Indónesíu, Ekvador og Gvatemala. Fríverslunarsamningur EFTA og Mercosur, tollabandalags Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrúgvæ bíður undirritunar. Þá á EFTA í samningaviðræðum við Indland, Malasíu og Víetnam. Þegar framangreindir samningar öðlast gildi og ef núverandi samningaviðræður EFTA skila árangri mun Ísland eiga í fríverslunarsambandi við ríki þar sem búa tæplega 5 milljarðar manna, tveir af hverjum þremur jarðarbúum.

Skýrslan fjallar einnig um ýmsa aðra samninga sem gegna mikilvægu hlutverki til að tryggja hagsmuni Íslands á sviði utanríkisviðskipta. Má t.d. nefna tvísköttunar- og fjárfestingarsamninga sem draga úr áhættu og kostnaði fyrirtækja við umsvif erlendis. Ég undirritaði tvísköttunarsamning við Japan árið 2018 og eru samningaviðræður í gangi um endurskoðun samninga við Síle, Singapúr, Búlgaríu og Þýskaland. Í fyrradag ræddi ég svo við utanríkisviðskiptaráðherra í Ástralíu um tvísköttunarsamning en vonast er til að lokið verði við gerð hans á þessu ári. Fjármálaráðuneytið gerir þessa samninga fyrir hönd Íslands.

Loftferðasamningar eru forsenda þess að íslensk flugfélög geti starfað á alþjóðlegum markaði og haldið víðtækum flugsamgöngum við útlönd. Á tíma mínum í embætti hafa verið gerðir og undirritaðir loftferðasamningar við Úkraínu, Marokkó og Mósambík og viljayfirlýsing var gerð við Japan sem greiðir fyrir beinum flugsamgöngum við landið. Þá var samningur um þessi mál gerður og undirritaður við Bretland. Einnig voru loftferðasamningar undirritaðir við Ísrael, Sádi-Arabíu, Tyrkland, Búrkína Fasó, Jamaíku og Rúanda. Það þarf ekki að fjölyrðu um hversu mikilvægt þetta víðfeðma samningsnet er fyrir íslenskt atvinnulíf, ekki síst í ljósi þess að búist er við að þungamiðja alþjóðlegrar fríverslunar og viðskipta haldi áfram að færast til austurs. Þar er ört vaxandi millistétt sem hefur tileinkað sér nýjar neysluvenjur. Áfram verður auðvitað brýnt að sinna nærmörkuðum en ljóst er að mikil tækifæri bíða íslenskra útflutningsfyrirtækja á fjarlægari slóðum.

Í skýrslunni er einnig fjallað um breytingar á norðurslóðum, aukinn áhuga fjarlægari ríkja á svæðinu og tækifæri og hagsmuni Íslands sem norðurslóðarríkis. Sjálfbærni þarf að vera gegnumgangandi leiðarljós í starfi okkar á norðurslóðum. Á næstunni kemur út önnur skýrsla þar sem fjallað verður sérstaklega um viðskiptatækifæri á norðurslóðum og hvernig best er að standa vörð um hagsmuni Íslands á þessu víðfeðma svæði.

Virðulegi forseti. Eins og ég gat um í upphafi hef ég lagt sérstaka áherslu á hlutverk mitt sem ráðherra utanríkisviðskiptamála allt frá því að ég tók við embætti fyrir rúmum fjórum árum. Það hefur margt gerst á þessum tíma. Efnahagssamvinna Íslands og Bandaríkjanna hefur verið fest í sessi og Íslandsfrumvarpið, sem er þýðingarmikið skref í átt að bættum aðgangi íslenskra fjárfesta og viðskiptaaðila að þessu mikilvægasta viðskiptalandi okkar, hefur verið lagt fram á Bandaríkjaþingi. Efnahagssamráði hefur sömuleiðis verið komið á við Japan og ég hef leitt viðskiptasendinefndir til Japans, Rússlands, Indlands og Bandaríkjanna. Bókanir við fríverslunarsamning Íslands og Kína hafa verið undirritaðar sem þýðir að samningurinn er loksins farinn að virka sem skyldi og útflutningur á bæði landbúnaðarvörum og sjávarútvegsvörum frá Íslandi er kominn á skrið. Þá hefur EFTA gert fríverslunarsamning við Ekvador og Indónesíu og uppfært samninginn við Tyrkland og hefur landbúnaðarsamningur Íslands og Ísraels sömuleiðis verið uppfærður. Þá bíður fríverslunarsamningur EFTA og Mercosur undirritunar.

Í raun hefur það verið forgangsmál á öllum mínum pólitíska ferli að berjast fyrir því að íslensk fyrirtæki búi við bestu mögulegu kjör á erlendum mörkuðum og að umgjörð viðskiptamála hér heima sé góð og traust. Hér áður var ég formaður þingmannanefndar EFTA og hef alla tíð haft metnað fyrir þessum málaflokki enda meðvitaður um mikilvægi utanríkisviðskipta fyrir lífskjör allra Íslendinga. Aðbúnaður íslenskra fyrirtækja þarf að vera með besta móti til að tryggja að á Íslandi vilji fyrirtækin okkar halda áfram að dafna og vaxa okkur öllum til hagsbóta. Það er beint, skýrt og klárt orsakasamband milli útflutningsverðmæta og lífskjara almennings. Gleymum því ekki. Það er því með mikilli ánægju sem ég legg fram þessa skýrslu hér á Alþingi. Ég vona að hún gagnist þinginu og hlakka til að eiga samtal við ykkur um utanríkisviðskiptamálin hér í dag.