151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

utanríkisviðskiptastefna Íslands, munnleg skýrsla utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. - Ein umræða.

[15:35]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka, eins og aðrir þingmenn sem hér hafa komið upp, fyrir þessa ágætu skýrslu og vinnuna á bak við hana af hálfu starfsfólks utanríkisráðuneytisins. Það er ljóst að hún nýtist vel sem yfirlit og samantekt yfir samninga sem tengjast utanríkisviðskiptum Íslendinga. Ég fagna því líka sem fram kemur í þessari skýrslu og er samantekið um áhrif Covid-19 á íslenskan útflutning. Það er gott að taka það saman þannig að það liggi fyrir. En hvort þetta er stefnuplagg efast ég stórlega um af því að mér finnst skorta það sem yfirskrift skýrslunnar er, utanríkisviðskiptastefna Íslands. Þar finnst mér svolítill skortur á.

En það eru áhugaverðir tónar slegnir í skýrslunni er varða sjálfbærni og mikilvægi hennar þegar kemur að viðskiptum þó að ég myndi vilja sjá miklu skýrari afstöðu og stefnumörkun en hér er að finna. Og í umfjöllun um áhrif loftslagsbreytinga á viðskipti, sem að mínu viti er nánast í mýflugumynd, hefðu mátt vera frjórri tillögur og skýrari sýn á stefnumörkun. Hv. þm. Smári McCarthy, formaður EFTA-nefndarinnar, fjallaði einmitt um það og kallaði eftir nákvæmari greiningarvinnu og ég tek undir það ákall hv. þingmanns.

Mig langar aðeins að minnast á ræðu sem hv. þm. Óli Björn Kárason hélt hér áðan þar sem hann talaði um fjölda tollnúmera sem einhvers konar áfellisdóm yfir ESB. Fjöldi tollnúmera segir enga sögu og skýrist fyrst og fremst af landbúnaðarstefnu ESB. Og það er svolítið merkilegt að heyra þingmanninn — sem því miður situr ekki hér í þingsalnum en vonandi er hann að hlusta — tala um Ísland sem opnasta land í heimi þegar sá hinn sami styður íslenska verndartolla á serranóskinku og önnur matvæli. Það er svolítið hjákátlegt. Kannski er líka rétt að minna þingmenn og aðra á að innan EES-ríkjanna 27, sem hv. þingmaður fjargviðraðist út í að væru með tollmúra, eru engir tollmúrar og mestu viðskiptin fara fram á milli þeirra.

En talandi um Evrópu hefði ég líka viljað sjá í þessari góðu skýrslu hæstv. utanríkisráðherra skýrari stefnumörkun þegar kemur að viðskiptum og viðskiptatækifærum í Evrópu. Evrópa er langstærsta heimsálfan þegar kemur að útflutningi á vöru og þjónustu frá Íslandi. Ég vil líka vekja athygli okkar á því að í stefnumótun Íslandsstofu kom fram að íslensk fyrirtæki legðu mesta áherslu á að þau vildu styrkja sig á mörkuðum í Evrópu, Norður-Ameríku og Kína. Á þetta eigum við að hlusta vel. Á þessum heimssvæðum eru enn ónýtt tækifæri, sérstaklega í Evrópu sem er langstærsta viðskipta- og markaðssvæði okkar. Ég vil hvetja hæstv. utanríkisráðherra til að nýta síðustu mánuði sína í embætti til að hlusta vel á þetta ákall frá forsvarsfólki íslenskra fyrirtækja og styrkja og styðja við íslensk fyrirtæki þegar kemur að enn styrkari og meiri viðskiptum og markaðssetningu í Evrópu.

Annars þakka ég fyrir þetta góða yfirlit og ágæta plagg sem nýtist okkur sem samantekt og vonandi líka sem innlegg inn í skýrari vinnu við utanríkisviðskiptastefnu okkar. Það væri gott og áhugavert að heyra hæstv. utanríkisráðherra koma með eitthvert innlegg inn í þessar Evrópuhugleiðingar mínar og varðandi það ákall frá íslenskum fyrirtækjum sem fram kom í markaðskönnun Íslandsstofu.