151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

utanríkisviðskiptastefna Íslands, munnleg skýrsla utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. - Ein umræða.

[15:39]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þessa skýrslu. Ef ég hefði minnsta grun um að ungt fólk væri að horfa á þessa útsendingu eða hlýða á mál okkar hér myndi ég svo sannarlega hvetja það til að kynna sér þessi mál vegna þess að skýrslan er aðgengileg og yfirgripsmikil um það sem að mínu mati skiptir mestu máli fyrir hagsæld íslensku þjóðarinnar, sem eru auðvitað viðskipti manna á milli. Fyrir litla þjóð, fámenna eyþjóð eins og okkar, eru alþjóðaviðskipti auðvitað lykilatriði að hagsæld hér. Þessi skýrsla sýnist mér geta staðið ein og sér. En þess utan ætla ég að nefna til fyllingar henni ágæta skýrslu um EES-samninginn og einnig nýútkomna skýrslu um tækifæri og samskipti Íslands við Grænland, sem einnig er fjallað svolítið um í þessari skýrslu.

Það er kannski helst að ég sakni þess að sjá í skýrslunni — ég ætla samt ekki útiloka að það sé nefnt einhvers staðar eftir að hafa að lúslesið hana — er umfjöllun um þær refsiaðgerðir sem Rússar beita Íslendinga og önnur Evrópuríki í kjölfar þeirrar viðskiptaþvingana sem við tókum þátt í, með réttu að mínu mati, gagnvart Rússlandi. Í kafla um Alþjóðaviðskiptastofnunina er fjallað alveg ágætlega um samskipti Bandaríkjanna og Kína og þær áskoranir og álitaefni sem eru í rekstri Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eftir innkomu Kína þar, en þar hefði kannski verið ágætt að minnast á Rússland og þann skort og það úrræðaleysi sem Alþjóðaviðskiptastofnunin hefur sýnt af sér gagnvart Rússum og í kjölfar þessara refsiaðgerða sem ganga þvert á samkomulag Rússa við aðrar þjóðir og þátttöku þeirra í Alþjóðaviðskiptastofnuninni.

Mig langar hins vegar að nefna eitt að lokum, það þekkja allir afstöðu mína hvað varðar tolla og annað og opnun landamæra hér, ég þarf ekki að reifa það hér, og ég veit að utanríkisráðherra getur ekki svarað spurningu minni. En ég geld varhug við þeim áformum sem mér sýnist vera um endurskoðun á tollasamningi við Evrópusambandið ef þau áform lúta að því að draga úr alþjóðaviðskiptum með landbúnaðarafurðir milli Íslands og Evrópusambandsins.