151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

utanríkisviðskiptastefna Íslands, munnleg skýrsla utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. - Ein umræða.

[15:42]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt og um leið ánægjulegt og til eftirbreytni að stefnumál skuli sett fram eins og gert er í skýrslunni Áfram gakk! og í erindi hæstv. ráðherra, hvernig horft er til framtíðar og helstu áskoranir metnar í samhengi við stöðuna, faraldurinn tekinn inn og allt sett í samhengi við þá þróun sem hefur átt sér stað síðustu áratugi í utanríkisviðskiptum þjóðarinnar og á alþjóðavísu. Leikmyndin er skýr. Viðbrögðin, aðgerðirnar, þátttaka, ýmiss konar verkefni og áherslur, sem farið er vel yfir í skýrslunni, verða markvissari og um leið miklu líklegri til að skila árangri. Eftir að hafa lesið þessa skýrslu finnst mér þetta standa upp úr.

Það hefur komið fram í umræðunni hér að aðild að EES, fríverslunarsamningar og tvíhliða samningar hafa, ásamt skýrum reglum og traustri samvinnu og auknu frelsi, tryggt íslenskum útflytjendum aðgang að mörkuðum víðs vegar um heiminn. Það er auðvitað lykilatriði að fella hvers konar múra eða hindranir og til þess fallið að leggja grunn að ábatasömum og gagnkvæmum viðskiptum þjóða í milli. Flestir þessara samninga ganga út á gagnkvæman ábata þannig að þjóðir geti nýtt sem best þá framleiðsluþætti sem henta til að skapa vöru og þjónustu. Þannig nýtast yfirburðir þjóða betur og það skapar gagnkvæman ábata sem leiðir til heildarávinnings. Þetta er alger kjarni í öllu sem við köllum utanríkisviðskipti. Þessi gagnkvæmi ábati er grundvöllur þeirrar hagsældar sem við höfum byggt upp, velferðar og bættra lífskjara. Þessi þróun er dregin mjög vel fram í skýrslunni og m.a. þegar horft er til hlutfalls utanríkisviðskipta af heildarverðmætasköpun í samanburði við aðrar þjóðir.

Aðgengi íslenskra fyrirtækja á markaði er auðvitað lykilatriði og það má mæla, eins og gert er í skýrslunni, allt frá því að við gerðumst aðilar að EFTA 1970 og síðan 1994 með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Það er enginn vafi á að tölurnar staðfesta það hversu vel hefur tekist að efla samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Það er skynsamlegast, eins og áhersla er lögð á í stefnunni sem hér kemur fram, að efla þátttöku okkar í EFTA til að þétta fríverslunarnetið sem nær til 74 ríkja. Mér sýnist það ágætlega reifað í skýrslunni hvernig við horfum til þeirra breytinga sem er viðurkennt að verði; að hlutdeild hefðbundinna markaða Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu muni minnka, þó að þar séu vissulega ónýtt tækifæri, en aðrir markaðir sækja fram, í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku. Ég held að það sé vel til fallið að halda áfram með vinnu við þessa skýrslu og að hún verði rædd hér reglulega. Þá getum við fengið að fylgjast með því hverju vindur fram með þessa samninga.

Ég vil í lokin, af því að það er kirfilega slegið út af borðinu að ganga í tollabandalag Evrópusambandsins, segja: Stundum er verið að blanda saman sérstöðu landbúnaðar og almennum rökum um viðskiptafrelsi. Sérstaða landbúnaðar felst í landnýtingu, landvernd, náttúruvernd, loftslagsbreytingum, ferðaþjónustu, matvælaöryggi. (Forseti hringir.) Við getum ekki tekið landbúnaðinn, þá sérstöku atvinnugrein, og þvælt honum inn í það að almenn rök um viðskiptafrelsi eigi við.