151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

utanríkisviðskiptastefna Íslands, munnleg skýrsla utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. - Ein umræða.

[15:50]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tók nú ekki eftir alveg hvað ég fékk margar spurningar en ég get alveg lofað ykkur því að ég get ekki svarað þeim á tveimur mínútum. En ég er fús til þess að svara þeim við önnur tækifæri og bara sem allra fyrst. Vonandi er hægt að koma því inn í störf þingsins með einhverjum hætti.

Ég þakka fyrir góða umræðu hjá hv. þingmönnum. Mér finnst ekkert að því að hv. þingmenn gagnrýni það sem gert er en ég vek athygli á því að þetta er í fyrsta skipti sem svona skýrsla hefur komið fram og það má örugglega vinna þetta áfram. Það er stór munur að hafa ekkert eða hafa skýrslu sem hv. þingmenn voru almennt mjög sáttir við. Ég skil ekki alveg hvernig menn komast að þeirri niðurstöðu að hér sé ekki rætt um landbúnaðarmál og hér er sannarlega líka rætt um loftslagsmálin. Ég get nú ekki farið í góðar spurningar hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar en það er að sumu leyti tekið í skýrslunni.

En ég ætla aðeins að segja eitt, virðulegi forseti. Það kom hörð gagnrýni á að í kaflanum um viðskiptastefnu Íslands og hinna EFTA-ríkjanna væri sú stefna borin saman við viðskiptastefnu Evrópusambandsins og það var hreinlega sagt: Samanburðurinn segir ekki neitt þegar við erum að tala um tollskrárnar. Samanburðurinn segir ekki neitt? Hvað segir þá eitthvað þegar menn ætla að bera saman viðskiptastefnur? Hvað er hér á ferðinni? Þetta eru staðreyndir og það er vitnað í úttekt sem var gerð þegar við vorum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Í örstuttu máli er þetta þannig að ef við göngum í Evrópusambandið og afsölum okkur viðskiptafrelsinu erum við ekki lengur með 90% tollfrelsi heldur erum við með 27%. Það þýðir að vöruverð hækkar hér, á flestum vörum. Það er nákvæmlega það sem fólk og fyrirtæki finna fyrir. Það er tekið beint úr þessum skýrslum þar sem kemur fram að við þyrftum að setja milljarða í ný tollkerfi og fjölga tollvörðum um í það minnsta tugi, jafnvel hundruð. Það myndi skerða samkeppnishæfni, t.d. sjávarútvegsins og landbúnaðarins, (Forseti hringir.) þó svo að tollfrelsi okkar væri miklu minna á þessum tíma vegna þess að (Forseti hringir.) það myndi hækka verð á aðföngum.

Virðulegur forseti. Ég hvet hv. þingmenn til að halda áfram að ræða þessa skýrslu og ég vil svo sannarlega taka þátt í þeirri umræðu. (Forseti hringir.) En menn verða auðvitað að sætta sig við staðreyndir. Það fylgir því ekkert frelsi fyrir okkur að ganga inn í Evrópusambandið. Það er augljóst.