151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

norrænt samstarf 2020.

497. mál
[16:33]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Eins og hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, fór ágætlega yfir var árið 2020 afskaplega sérstakt ár og fyrir okkur öll. Við hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir, sem forseti Norðurlandaráðs og ég sem varaforseti, ætluðum okkur stóra hluti árið 2020. Við ætluðum m.a. að fara út um allt land og tala um mikilvægi norræns samstarfs, heimsækja norrænu félögin og nýta árið og nota forsetatíðina til þess að glæða áhuga og skapa aukinn áhuga meðal landsmanna fyrir norrænu samstarfi. En auðvitað er norrænt samstarf út um allt. Það er í gegnum félagasamtök, gegnum sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki og íþróttafélög. Það er afskaplega mikilvægt fyrir íslenskt samfélag og það skiptir okkur mjög miklu máli að hlúa að því og rækta. Það munum við auðvitað gera áfram þó að þetta hafi verið svolítið skrýtið ár í þá veru. En eins og hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir kom inn á áðan héldum við samt mjög marga fundi og gátum haldið samstarfinu nokkuð vel lifandi þrátt fyrir þessar sérstöku aðstæður. Í sumum tilfellum vorum við með fleiri fundi og það var jafnvel betri mæting fyrir vikið af því að þetta voru fjarfundir og menn þurftu ekki að ferðast um langan veg.

Það sem mig langaði til að ræða hér aðallega er vinnan okkar um samfélagsöryggi. Ég var í starfshópnum fyrir flokkahóp jafnaðarmanna. Það var fimm manna starfshópur þar sem var einn úr hverjum flokkahópi Norðurlandaráðs til að vinna að skýrslu um samfélagsöryggi. Við höfðum rætt það svolítið, höfðum fengið til okkar yfirmenn stofnana í ríkjunum til að fara yfir málið og við sáum að þarna vantaði eitthvað upp á og við vildum koma með skýr skilaboð í Norðurlandaráði um þessi mál. Það var árið 2019. Við vildum skoða þær ógnir sem að löndunum gætu steðjað sem ekki eru stríðsógnir. Við töluðum um náttúruhamfarir, skógarelda, flóð, öfgaveður, heimsfaraldur, þó að okkur dytti ekki í hug að við þyrftum að glíma við hann eftir nokkra mánuði, samgönguslys, kjarnorkuslys, hryðjuverk, tölvuárásir, mengun neysluvatns, olíuleka í hafi og örðugleika við öflun eldsneytis, raforku og matvæla. Þetta eru allt saman stór og mikilvæg mál.

Það sem við sáum í okkar skoðun og samtölum við forstöðumenn stofnananna í öllum norrænu ríkjunum, bæði almannavarna og annarra stofnana, t.d. þeirra sem horfa sérstaklega á netöryggi og lögreglu, svo að dæmi séu tekin, var að skipulagið og umboðið var óskýrt. Við vildum gjarnan koma með skýr skilaboð til ríkisstjórnanna um að þetta þyrfti að laga. Það var alveg ljóst og er enn ljóst að skortur er á pólitískri forystu og skortur á umboði til að stíga fram þegar á reynir. Það eru stjórnsýsluhindranir á milli landanna sem gera samfélagsöryggi og samstarf um það erfiðara. Það þarf að auka gagnkvæman skilning á viðmiðum og starfsháttum. Það eru mismunandi viðmið og skilgreiningar á því hvað eru almannavarnir og hvað heyrir undir lögreglu, hvað heyrir undir her o.s.frv. Það þarf að skerpa á þeim skilningi og hvernig aðilar geta unnið saman þrátt fyrir ólík viðmið. Það þarf að koma auga á flöskuhálsa í samstarfinu og finna leiðir til að koma í veg fyrir þá. Svo þarf að uppræta efasemdir um hlutverk og ábyrgð.

Ein af orðsendingunum sem við sendum til ríkisstjórnanna var að Norðurlandaráð vill að ríkisstjórnirnar á Norðurlöndunum meti hvernig fari best á að nýta norrænu ráðherranefndina í samstarfi um norræna utanríkis- og öryggismálastefnu, þar á meðal norrænt samstarf um samfélagsöryggi og almannavarnir til að hún veiti því stuðning. Við vorum því tiltölulega nýbúin að senda þessi skýru skilaboð til norrænu ráðherranefndarinnar þegar við þurftum síðan að glíma við heimsfaraldur. Þá komu einmitt í ljós brestir sem við hefðum þurft að vera búin að byggja undir og við sjáum núna að við verðum að læra af til að halda áfram. En líkt og hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir sagði áðan var ýmislegt sem gekk vel. En það eru samt stórir þættir sem við þurfum að fara betur yfir og læra af þessum heimsfaraldri. Ég held að öll norrænu ríkin séu tilbúin til þess. En það þarf auðvitað að leggja á það áherslu í hverju landi fyrir sig.

Frú forseti. Mig langar að tala líka aðeins um samskipti Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar. Við höfum svolítið verið að ræða það annað slagið, t.d. á fundum forsætisnefndar. Norðurlöndin, samkvæmt stefnu norrænu ráðherranefndarinnar, vilja verða samþættasta svæði í heimi. Þau voru nýbúin að gefa það út þegar Covid skall á okkur. Við þurfum að skoða betur hvað það þýðir nákvæmlega að vera samþættasta svæði í heimi. Hvað gerir það aðlaðandi að Norðurlöndin séu einmitt það? Ég held að það sé stórt verkefni að vinna að því og þar eru stjórnsýsluhindranir mikilvægur þáttur, að taka þær niður. Í öllum þeim könnunum sem gerðar hafa verið í norrænu ríkjunum þar sem fólk er spurt hversu mikilvægt því finnist norrænt samstarf kemur í ljós að það eru bara næstum allir íbúar á Norðurlöndum sem vilja aukið norrænt samstarf. Það eru rosalega skýr og mikilvæg skilaboð til norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs.

Hins vegar þegar kemur að fjármunum, að því að setja fjármuni í þetta samstarf sem íbúunum finnst svona mikilvægt, er annað uppi á teningnum. Í mjög mörg ár hefur sama krónutalan verið gefin frá hverju landi fyrir sig sem þýðir í raun að fjárveitingin hefur dregist saman og dregst saman frá ári til árs ef verðlagsuppbætur eru ekki inni í dæminu, þó ekki væri annað. Það verður til þess að þegar koma ný verkefni þá þarf að skera niður í þeim sem fyrir eru. Það gerðist einmitt núna. Við áttum í löngum og ströngum samningaviðræðum, ég og hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir, við samstarfsráðherra norrænu ráðherranefndarinnar um fjárhagsáætlunina núna vegna þess að sett voru á laggirnar áform um græn verkefni, verkefni til að vinna gegn loftslagsvánni — sem eru mikilvæg og allir voru sammála um að fara í — en til þess að fjármagna þau var skorið niður í menningunni, í skólastarfinu og menningarstarfinu. Þessu vildum við mótmæla vegna þess að þar er grasrótin hvað virkust, í menningarmálunum og skólamálunum. Við náðum þar nokkrum árangri, leyfi ég mér að segja, en það þarf auðvitað að gera betur. Mér finnst skilaboðin til norrænu ráðherranefndarinnar hljóti að vera í fyrsta lagi að hún þurfi að taka tillit til þess sem þing Norðurlandaráðs samþykkir og auðvitað þurfa ríkisstjórnirnar að taka það upp í hverju landi og framfylgja því sem Norðurlandaráð samþykkir. Það þarf líka að horfa á vilja íbúanna um að auka skuli og gæta að norrænu samstarfi og það kostar peninga. Það kostar peninga að koma á nýjum verkefnum en þau munu skila okkur margfalt til baka. Það er ekki skyndigróði en það er gróði sem skilar okkur áfram í betra samfélagi og hvaða gróði gæti nú verið betri en einmitt sá, frú forseti?