151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

norrænt samstarf 2020.

497. mál
[16:55]
Horfa

Frsm. ÍNR (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir ræðuna og þær spurningar sem hún beindi til okkar í Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Fyrst varðandi bólusetningarskírteinin. Þetta er einmitt mál sem við höfum rætt töluvert og að mínu mati fyndist mér liggja beint við að gefa út norræn bólusetningarskírteini sem yrði gagnkvæm viðurkenning á. Það er rétt hjá þingmanninum að ekki var tekið neitt sérstaklega vel í það á fundinum sem þingmaðurinn nefnir. Við í Mittengruppen, þ.e. í miðjuflokkahóp Norðurlandaráðs, sendum fyrirspurn til ráðherranna fyrir, ætli það séu ekki komnar tvær vikur, tíminn líður svo hratt, varðandi þetta mál og við bíðum svara. Það verður áhugavert að sjá hvert næsta skref verður en við hyggjumst fylgja þessu máli eftir gagnvart ráðherrunum.

Skýrsla Björns Bjarnasonar er afar góð, sérstaklega vegna þess að hún er svo skilmerkileg, auðlæsileg og góð. Hún verður kynnt og það verður fundur um þá skýrslu næsta mánudag með formlegum hætti.

Já, tíminn líður og líður. Ég er ekki einu sinni komin að Kína og netörygginu. Í stuttu máli sagt hafa netöryggismálin mikið verið til umræðu og það er rétt að gagnkvæmt traust ríkir á milli Norðurlandanna og einnig höfum við verið í samstarfi við Eystrasaltsþjóðirnar á þeim vettvangi. Þá ber kannski helst að nefna fjölþáttaógnasetrið í Helsinki sem við höfum lagt fjármagn til og ætlum að verða aðilar að, það var gert núna í síðustu fjárlögum. Við Íslendingar erum því að komast kannski með formlegri hætti inn í það samstarf sem snýr að fjölþáttaógnum, þar á meðal netöryggismálum.