151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

norrænt samstarf 2020.

497. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. ÍNR (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það ríður á að við tökum fast á netöryggismálunum, það er mjög aðkallandi verkefni. Það hefur mikil umræða verið um þau mál innan Norðurlandaráðs og einnig á milli utanríkisráðherra Norðurlanda, eftir því sem ég kemst næst. Þá komum við líka að ásókn Kínverja á norðurslóðir og öðru sem snýr að utanríkismálum. Það eru kannski takmörk fyrir því hversu langt við þingmenn Norðurlandanna, sem eigum sæti í Norðurlandaráði, getum seilst í að hafa áhrif á utanríkisstefnu annarra ríkja og upplýsingagjöf þeirra á milli. Þetta eru oft og tíðum leynilegar upplýsingar og þó að ríki traust og gott samstarf þá eru ákveðin takmörk sem takmarka kannski í sumum tilfellum upplýsingaflæði. En þó er hægt að segja að fagráðherrar Norðurlandanna eru ekki bara í reglulegum formlegum samskiptum heldur einnig óformlegum. Hvað varðar Kínverjana hefur Norðurlandaráð kannski ekki verið með það málefni ofarlega á baugi þó að það hafi komið til tals. Við erum ekki komin með sérstaka stefnu. En það kom út skýrsla í sænska þinginu eftir því sem ég veit best, líklega 2019, varðandi Kína. Ég hef ekki séð þá skýrslu og við höfum ekki tekið hana fyrir með formlegum hætti í Norðurlandaráði. En þetta er málefni sem við munum halda áfram að skoða og fylgjast grannt með.