151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

norrænt samstarf 2020.

497. mál
[17:07]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég heyri mikinn og góðan samhljóm á milli mín og hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur. Hv. þingmaður sagði að við værum sammála um að norðurslóðir ættu að vera lágspennusvæði en spurningin væri hvort þær séu það og hvort við getum lagt eitthvað af mörkum til að svo verði. Orð eru til alls fyrst. Ef Norðurlöndin, öll lönd á svæðinu, ná saman um að lýsa því yfir að norðurslóðir séu lágspennusvæði, svæði þar sem engin hernaðarumsvif eða -mannvirki verða og að þau svæði verði friðuð fyrir umferð og meðferð kjarnorkuvopna, þá er það býsna sterk rödd. Ef við gerum það ekki þá eru það skilaboð til einhverra sem vilja eitthvað af þessu, að það sé ekki endilega stefna fólks á þessu svæði. Þannig að hvert og eitt okkar sem höfum rödd í þessu berum ábyrgð á að tala fyrir þessari stefnu, sama hvort það er hér í þingsal eða innan þess alþjóðasamstarfs sem við tökum þátt í. Ef við látum ekki vita að við viljum lágspennusvæði, að við viljum horfa á norðurslóðir fyrst og fremst út frá loftslagsmálum, svo að dæmi sé tekið, af hverju ætti þá einhver endilega að taka tillit til þess? Ef við náum hins vegar saman um þetta á Alþingi, innan alþjóðasamstarfs, þá erum við búin að setja mikilvægt og gott fordæmi.

Því miður hefur sú samstaða ekki tekist á milli allra flokkagrúppa í Norðurlandaráði þegar komið hafa t.d. tillögur um friðlýsingu fyrir kjarnorku. Ég hef átt þátt í að flytja slíkar tillögur og við erum með í undirbúningi tillögu sem horfir á norðurslóðir fyrst og fremst út frá loftslagsmálum. Það er það sem við eigum að gera, tala fyrir loftslags- og umhverfismálum því að þar eru norðurslóðir viðkvæmastar.