151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

norrænt samstarf 2020.

497. mál
[17:10]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði getað fallið frá andsvarinu en þetta voru engu að síður svo áhugaverðir punktar sem hv. þingmaður kom inn á. Ég tek undir þetta og það er í norðurslóðastefnu Íslands að norðurslóðir séu lágspennusvæði. Við erum reyndar að vinna að endurskoðun þeirrar stefnu og þetta er ein af þeim spurningum sem við þurfum að svara. Ég held að allir geti svarað því skýrt að þeir vilji að svæðið sé lágspennusvæði. Spurningin er aftur á móti hvort það sé það, hvert sé raunverulegt mat á því. Þá þurfum við líka aðeins að tengja okkur raunveruleikanum, hvað er í gangi. Það eru ekki bara Norðurlöndin sem hafa með það að gera, við höfum séð mikla uppbyggingu hernaðarmannvirkja hjá Rússum á norðurslóðum. Sumir telja að það sé kannski eðlilegt vegna þess að þeir séu að verja sín landamæri og séu bara allt í einu að horfa fram á nýjan veruleika, en þeir eru að horfa fram á nýjan veruleika vegna loftslagsbreytinga. Auðvitað snúast því norðurslóðamálin að miklu leyti um loftslagsbreytingar. Og það er stóra málið og er í mínum huga stóra málið hvernig hægt er að búa á norðurslóðum í því umhverfi sem er í dag og í því umhverfi sem við sjáum til framtíðar. Á sama tíma og við ættum að sjálfsögðu að reyna að draga úr útblæstri og draga úr óæskilegum áhrifum þá eru þau til staðar og þau verða til staðar og við þurfum að finna leiðir til að draga úr þeim. En það er kannski ræða sem á frekar heima undir einhverri annarri umfjöllun.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma með mér í þetta samtal og hvet hv. þingmenn sem sæti eiga á þingi Norðurlandaráðs til að halda þessari umræðu á lofti innan Norðurlandaráðs.