151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

Vestnorræna ráðið 2020.

492. mál
[17:32]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég kom inn á í fyrra andsvari hefur staðan í Færeyjum gerbreyst á undanförnum árum síðan EGNOS var tekið upp og menn fóru að nýta sér þá tækni af fullum krafti. Grænland er risastórt land, 22 sinnum stærra en Ísland. Þar er verið að fljúga vítt og breitt. Það verður aldrei hægt að setja upp hefðbundinn, gamaldags landbúnað eins og höfum þekkt síðustu áratugi vítt og breitt um Grænland en gervihnattaleiðsaga gæti með ódýrum hætti búið til allt aðrar forsendur, hvort sem er þá fyrir flug á nýjum alþjóðaflugvelli sem er verið að byggja eða aðra flugvelli, minni flugvelli á Grænlandi. Síðan er leit og björgun, þyrluflug og annað. Ég hugsa að á Grænlandi sé mjög sérstök staða og þetta myndi bæta ótrúlega allar samgöngur og öryggi þar.

EGNOS nær með ákveðnum hætti inn á austurhluta landsins, frá Tröllaskaga og til austurs og hægt að nota það í ákveðnu aðflugi. Það þýðir að hægt er að fara aðflug sem lægri aðflugslágmörk gilda um, fljúga raunverulega í verri veðrum og verra skyggni og skýjahæð. Merki um þetta eru farin að sjást á austurhluta landsins. Á ákveðnum stöðum eins og Húsavík og Akureyri er komið aðflug sem tengist þessu að einhverju leyti og verið er að vinna með Höfn og fleiri staði á austurhluta landsins.

Þetta er gríðarlegt framfaramál og við vorum að ræða hérna grænt flug í gær og mikilvægi þess. Betri flugleiðsaga með EGNOS ýtir enn frekar undir þá möguleika að geta nýtt grænt flug vítt og breitt með allt öðrum hætti í framtíðinni en við þekkjum í dag. Persónulega er sá sem hér stendur gríðarlega spenntur fyrir því að við náum framgangi í þessu. Aðild að Evrópsku geimvísindastofnuninni veitir gríðarlega möguleika, ekki bara í fluginu heldur líka á hafsvæðinu og rannsóknum og vísindum, og þar er mikil eftirspurn á Íslandi eftir að komast inn og við myndum örugglega fá fjármagnið til baka í gegnum rannsóknarstyrki og annað, að mestu ef ekki öllu leyti, með svipuðum hætti og Norðmenn gera í dag.