151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

Vestnorræna ráðið 2020.

492. mál
[17:34]
Horfa

Frsm. ÍVN (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir andsvarið. Það liggur nú við að ég vilji spyrja hann fleiri spurninga en ég get svarað hér. Við skynjum af samtölum okkar á vegum vestnorræna ráðsins, hvort sem það á við um ráðherra Vestnorrænu ríkjanna eða fulltrúa Evrópuþingsins eða Evrópusambandsins, norðurslóðaráða þeirra, að það er áhugi á að reifa þetta og reyna að koma þessu í kring. Í þessu eru auðvitað einhverjir fjármunir en spurning hvort skilyrðið verði að við gerumst aðilar að Evrópsku geimvísindastofnuninni, það er álitamál og ekki víst að það sé skilyrði. Aðild þar yrði áreiðanlega þekkingu í landinu og vísinda- og rannsóknarstörfum til framdráttar. Við lifum stöðugt nýja tíma þar sem kannski verður orðinn mikill og ríkur kostur að vera þar innan búðar.

Við teljum að það að setja upp þennan búnað muni hafa mikinn kost í för með sér fyrir flug milli Íslands og Grænlands. Oft er kvartað undan háu verðlagi á flugi. Það er m.a. fólgið í því að flugið er óstöðugt. Flugvélarnar eru litlar og verða stundum að snúa frá, stundum þarf að fresta flugi og það kostar allt saman peninga og það greiða engir aðrir en farþegarnir sjálfir.