151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

Vestnorræna ráðið 2020.

492. mál
[17:45]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér skýrslu Vestnorræna ráðsins sem er bæði mikilvægt og farsælt ráð. Ég held að þetta sé samt minnsta alþjóðlega starfseining í heimi af þessum toga. Mannfjöldinn telur um 400.000 manns, eitthvað svoleiðis, en flatarmálið er gífurlegt, bara Grænland er yfir 20 sinnum stærra en Ísland þannig að þetta er litla músin sem getur öskrað, það er hægt að segja sem svo.

Stundum ræða menn ekki viðkvæm stórpólitísk deilumál, innanríkismál í raun og veru, á vettvangi svona margþætts þjóðasamstarfs eins og hér er til umræðu. Ég get bara nefnt sígilt dæmi sem eru öryggis- og varnarmál á vettvangi Norðurskautsráðsins eða þingmannaráðstefnu norðurslóða sem ég tek þátt í. En mig langar samt sem áður að velta upp slíku. Það snýst þá um auðlindaleit og auðlindavinnslu sem er auðvitað ríkur þáttur á Grænlandi og í Færeyjum og hjá okkur hér líka og hefur verið það, en tengist þjóðunum þremur með svolítið ólíkum hætti. Þær tvær sem ekki eru sjálfstæðar, Grænland og Færeyjar, líta á nýjar auðlindir sem lykil að sjálfstæði. Við sem höfum öðlast sjálfstæði gerum það á vissan hátt líka en ekki með sama hætti, þ.e. fyrir þeim, grönnum okkar, er þetta eins konar aðgöngumiði að sjálfstæði. Hjá okkur er þetta meira bara til þess að tryggja stöðu okkar og hafa hér gott mannlíf.

Þær auðlindir sem ég er að hugsa um og beina augum að er það sem við köllum sjálfbærni, þ.e. nytjum og vernd, því jafnvægi sem þar þarf að vera á milli. Ég er þá að tala annars vegar um hefðbundnar auðlindir, t.d. fisk, sem er þá hægt að nýta sjálfbært vegna þess að hægt er að stjórna veiðum og rannsaka stofnstærðir og annað, og hins vegar þá tegund af auðlindanytjum sem er þá það sem við getum kallað námarekstur, sem er ekki sjálfbær vegna þess að hann gengur óafturkræft á auðlindir. Þá er ég einkum að hugsa um von um jarðefnaeldsneyti, olíu, gas og svoleiðis, bæði í Færeyjum og á Grænlandi. Við erum búin að afskrifa það hér á Íslandi, a.m.k. lít ég svo á, en þessi skiljanlegi áhugi á námarekstri — nú er ég ekki að tala um málma, þeir eru líka til staðar, sérstaklega á Grænlandi, og önnur verðmæt jarðefni, nú er ég fyrst og fremst að tala um olíu og gas — leiðir til mjög sérstakrar mótsagnar. Hún byggist á því að það er nóg til af þekktum kola-, olíu- og gasbirgðum í heiminum en það er hins vegar orðið niðurstaða rannsókna vísinda- og alþjóðastofnana að ekki megi nýta nema einn þriðja af þeim birgðum ef við ætlum að ná tökum á hlýnun af mannavöldum. Núverandi vinnsla, með þeim hraða sem hún er á núna, stefnir í raun og veru langt yfir þann hluta, stefnir í það að meira en einn þriðji verði nýttur ef við höldum svona áfram.

Þá leiðir maður hugann að því ef slíkar auðlindir fyndust við Grænland og Færeyjar. Færeyingar hafa stundað þær rannsóknir og þær hafa ekki enn gefið af sér vinnsluhæfar auðlindir. Grænlendingar eru komnir skemmra á veg en þar eru ýmsar vonir um slíkt. Síðan skulum við fara víðar um norðurslóðir, við getum hugsað um Barentshaf þar sem Rússar og Norðmenn eru á fullu. Ef þessi viðbótarvinnsla fer nú öll í gang í heiminum þá eykur það á losun kolefnisgasa á heimsvísu, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, og þar með á vanda allra landa vegna þess að innihald koldíoxíðs, eins og við köllum aðalefnið, CO2, sem við öndum reyndar frá okkur, er nú komið vel yfir 400 hluta af milljón, 0,04‰, og eykst nokkuð hratt enn þá, þannig að við værum í raun og veru að auka á losun með þessari tilteknu vinnslu og það myndi þá flýta fyrir hækkun sjávarborðs sem er núna þrír til fjórir millimetrar á ári. Ef maður sýður þetta saman í stutta setningu þá er þetta einfaldlega þannig að aukin vinnsla orkugjafa úr jörðu, olíu og gass, á norðurslóðum getur orðið okkur öllum dýrkeypt. Nú ætla ég ekki að fara að klandra Grænlendinga og Færeyinga sérstaklega vegna þess að þetta er staðreynd — og a.m.k. á tímum Trump-stjórnarinnar stóð til að fara út í verulega vinnslu olíu og gass í Alaska — en það eru sem sagt nýjar lindir í allt of stóru safni nú þegar og aukin vinnsla olíu og gass á norðurslóðum getur orðið okkur öllum mjög dýrkeypt.

Það er mótsögnin sem ég er að reyna að gera grein fyrir og þá er spurningin þessi: Er þetta umræðuefni innan Vestnorræna ráðsins? Mig grunar að svarið sé nei, á sama hátt og ég var að gera grein fyrir því hvernig öryggis- og varnarmál eru ekki rædd innan samstarfsríkjanna átta og fleiri aðila sem koma að Norðurskautsráðinu. Ef vinnslan er ekki rædd í ráðinu, væri ráðlegt að breyta því? Segjum að Íslendingar tækju þetta upp vegna þess að við höfum áhuga á og áhyggjur af hækkun sjávarborðs hér við land. Eða er það jafnvel í bígerð? Mig grunar ekki. Þannig að ég ætla að biðja hv. þm. Guðjón Brjánsson að svara mér í andsvari, ég ætla að biðja um andsvar, og vil gjarnan útskýra það fyrir herra forseta að ég fór í þessa ræðu bara til að hafa lengri ræðutíma en hefðbundið andsvar. Ég ætla að vona að hv. þm. Guðjón Brjánsson svari mér.