151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

Vestnorræna ráðið 2020.

492. mál
[17:53]
Horfa

Frsm. ÍVN (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. ræðumanni Ara Trausta Guðmundssyni fyrir innlegg hans. Hann þekkir norðurslóðasvæðið gjörla, er búinn að ferðast mjög mikið um þetta svæði og m.a. um Grænland og þekkir vel til háttu þar. Við þekkjum af reynslu okkar allra síðustu ár þær breytingar og þau umbrot sem eru á Grænlandi og hversu áfram þeir eru um að móta samfélagið þannig að það svari kröfum tímans. En þeir eru varfærnir. Þannig er nú að þeir treysta Íslendingum, það ríkir sérstakt traust á milli. Íslendingar eru í viðskiptum og samskiptum við Grænlendinga, eru í stórum verkefnum bæði varðandi byggingarframkvæmdir og svo flugvallarframkvæmdirnar. Maður skynjar að þeir vilja gjarnan fá Íslendinga í lið með sér sem viðskiptafélaga en ekki bara sem verktaka, að við tökum á þessu með þeim og tökum að einhverju leyti áhættu með þeim. Við erum nýbúin að fá, eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir nefndi, stóra og merkilega skýrslu um Grænland og tengsl okkar við Grænland þar sem mælt er með því að við stóreflum öll okkar samskipti. Við erum farin að stíga skref í þá átt, m.a. með auknum siglingum. Ég leyfi mér að spyrja hv. þm. Ara Trausta hvort hann meti það ekki sem skynsamlegan kost. Hvar liggja færi okkar þar til að mæta þessari merkilegu þjóð á jafnréttisgrunni?