151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

Vestnorræna ráðið 2020.

492. mál
[17:58]
Horfa

Frsm. ÍVN (Guðjón S. Brjánsson) (Sf) (andsvar):

Hv. forseti. Það kann að virka þannig að ég fari undan í flæmingi og svari ekki, ég stóð ekki alveg klár. En Vestnorræna ráðið er til stofnað með sínum hætti til þess að auka tengslin á milli þessara þriggja þjóða, halda sambandinu. Samkvæmt hefð er það á sviði menningar, bókmennta og félagslegrar þátttöku af ýmsu tagi og í breiðum skilningi. Þetta er flókin staða og krefjandi en ég held að við þurfum að taka afstöðu til hennar.

Íslendingar eru sjálfstæð og fullvalda þjóð en það eru hinar þjóðirnar ekki enn sem komið er. Og það er þessi línudans varðandi t.d. utanríkisstefnuna. Þær þjóðir eru orðnar giska sjálfstæðar varðandi öll stór mál nema kannski utanríkisstefnu sína og öryggismálin þar af leiðandi að einhverju leyti, efnahagsmálin að hluta til, því að þau eru ekki alveg efnahagslega sjálfstæð. Færeyingar eru komnir talsvert lengra að þessu leyti en Grænlendingar. En ég tel að það séu ónýtt tækifæri innan Vestnorræna ráðsins hvað þetta varðar og við eigum að taka ýmis krefjandi verkefni líka til umfjöllunar. Þetta er svo mikilvægt samstarf, þessi tengsl eru svo dýrmæt að ég held að við ættum að gera það, en þar með breytist náttúrlega Vestnorræna ráðið talsvert. En ég held að það verði að taka þessa pólitísku ákvörðun. Eigum við í vestnorðrinu ekki að gerast afl á norðurslóðum?