151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

Vestnorræna ráðið 2020.

492. mál
[18:01]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að við þurfum að fara mjög varlega með þau mál sem er mikil óeining um innan þessara landa og þá á ég t.d. við óeininguna um námuvinnsluna í Kvanefjeld í Suður-Grænlandi þar sem m.a. úranið er. Þar eru pólitísku öflin í Grænlandi innilega ósammála og jafnvel meðal almennings er sami klofningur. Ef ræða á það á vettvangi Vestnorræna ráðsins eins og aðra auðlindavinnslu eða bara breyttar fiskveiðar — nú vitum við að í bili er ekki ætlunin að veiða fisk í Norður-Íshafinu, kannski ætti að bíða þess að rannsóknir og annað varpi ljósi á hvað hægt er að gera. Það getur vel verið að við verðum komin með annað auðlindavandamál þar, þ.e. að við verðum ekki sammála um hvað skuli gera á norðurslóðum, í Norður-Íshafinu þegar kemur að fiskveiðum.

Ég nefndi öryggismálin og Norðurskautsráðið þar sem þetta er heit kartafla sem er bara geymd. Menn segja þar hins vegar: Við þurfum samt sem áður að ræða það. Við þurfum bara að finna annan vettvang, ekki að reyna að rugga bátnum innan Norðurskautsráðsins. Við gætum sagt það sama varðandi Vestnorræna ráðið. Við skulum ræða þetta á vettvangi, kannski bara tvíhliða, ekki rugga bátnum, rugga hefðinni í Vestnorræna ráðinu og taka inn svona mál. En mér finnst samt sem áður mjög mikilvægt að ræða auðlindanýtingu á norðurslóðum í ljósi loftslagsmála, alveg sama hver á í hlut.