151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

norðurskautsmál 2020.

498. mál
[18:32]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Með vindorkuna einmitt, stærðir og annað, þá höfum við séð að íslensk fyrirtæki hafa verið að vinna með litlar stöðvar, kannski 20–30 kW vindorkustöðvar. Hvert eru menn að horfa? Hvert erum við að horfa á norðurslóðum í þessum málum varðandi vindorku? Eru það kannski líka batterí og annað, öll sú tækni sem er að koma? Þetta eru svo gríðarlega erfiðar fjarlægðir. Það er raunverulega ekki hægt að reisa dreifikerfi víða eða flutningskerfi raforku eins og við þekkjum það, öfluga byggðalínu. Og svo fjarskiptamálin. Þessi samfélög munu kannski aldrei þróast með jákvæðum hætti nema við leysum fjarskipta- og orkumálin. Það verður alltaf lykillinn að öllu. Þetta eru hugtökin sem snúa að fjórðu iðnbyltingunni fyrir þessi landsvæði. Hvort sem er á Íslandi eða annars staðar þá tölum við alltaf um aðgengi að raforku og fjarskiptum þegar talað er um fjórðu iðnbyltinguna. Hvar standa þau mál á þessum landsvæðum sem hv. þingmaður ræðir við kollega sína á norðurslóðum, þessi grundvallarmál sem snúa að fjarskiptum og raforkumálum? Er eitthvað verið að tala um sjávarföll, strauma eða eitthvað slíkt? Við heyrum svo sjaldan um þetta að mig langar að heyra aðeins af þessu.