151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

norðurskautsmál 2020.

498. mál
[18:34]
Horfa

Frsm. ÍNSM (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að orkumálin annars vegar og fjarskiptin hins vegar eru undirstaða þess að mannlífið þarna nái stöðu sem er mjög vel ásættanleg fyrir þá sem þarna búa, að vel menntað fólk tolli á norðurslóðum og vinni þar, að stjórnkerfið gangi upp o.s.frv. Hingað til hefur þetta svo sem gengið allt meira eða minna fyrir olíu eða einhverju slíku nema Rússland hefur í æ vaxandi mæli snúið sér að fljótandi náttúrugasi. Fyrir þá er umhverfisvænasta lausnin þetta sem heitir LNG, „liquefied natural gas“ á ensku, fljótandi jarðgas. Losunin er u.þ.b. 20% af losun frá venjulegu gasi eða olíu, þannig að það verður að segjast.

En vindorkan er rétt að skríða af stað. Það eru ekki eingöngu komnar stórar vindmyllur, það eru komnar myllur sem eru snúðar sem standa lóðrétt og eru fyrirferðarminni og allt öðruvísi en þessar hefðbundnu vindmyllur. En það er alveg klárt mál að ef ná á árangri þarf jú að treysta á gasið svo langt sem það nær en einnig vindorkuna og síðast en ekki síst að breyta gervihnattaaðgengi vegna fjarskipta, vegna tölvunotkunar, vegna símans, vegna leiðsagnarkerfa og annars slíks. Miðað við það sem ég þekki af löggjafarstarfi þessara þinga tel ég að þetta sé frekar stutt komið en á réttri leið.