151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

norðurskautsmál 2020.

498. mál
[18:36]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni kærlega fyrir ræðuna. Ég þakka auðvitað fyrir þessa skýrslu en ekki síður fyrir það sem hann kom inn á í ræðu sinni, sem ég held að sé mjög mikilvægt. Það tengist norðurslóðamálum almennt og hvað er að gerast á því svæði og sannarlega fengur fyrir okkur að hafa svo fróðan mann um þessi mál í þessu hlutverki.

Í þessu alþjóðasamstarfi okkar, þessari litlu nefnd, Íslandsdeild þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál — í fyrsta lagi er það náttúrlega alveg hræðilegt nafn, ég leyfi mér að segja það — eru þrír hv. þingmenn. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson fer fyrir nefndinni og fundar þar af leiðandi reglulega og tekur þátt í starfinu. Ef ég skil það rétt þá sækja hinir tveir nefndarmennirnir bara þá ráðstefnu sem er á tveggja ára fresti. Ég hef lagt til að við endurskoðum aðeins alþjóðastarf okkar hér á þingi og mér finnst reyndar góð regla að reglulega sé farið yfir það hvaða alþjóðastarf er í gangi meðal þjóðþinga og hvar áherslur okkar eiga að liggja á hverjum tímapunkti. Ég verð að segja að mér finnst að í alþjóðastarfi hér á íslenska þjóðþinginu eigi að leggja miklu meiri áherslu á norðurslóðamál almennt og þá er ég ekki eingöngu að vísa í þessa þingmannaráðstefnu og SCPAR-fundina, þ.e. stjórnarnefndirnar, heldur bara almennt um norðurslóðir því það er í mínum huga eitt af okkar stærstu alþjóðamálum og utanríkispólitískt mál.

Í því tilliti má nefna að við höfum einstaklega farsælan viðburð hér, Arctic Circle, Hringborð norðurslóða held ég að sé íslenska heitið, árlega ráðstefnu hér, þar sem vísindamenn, fulltrúar úr atvinnulífinu, fulltrúar í ýmsum óhagnaðardrifnum félagasamtökum sem hafa áhuga á þessu máli, nemar, þingmenn og ráðamenn koma saman. Það er að mínu viti stór og merkur og einstaklega mikilvægur viðburður. Fyrrverandi forseti okkar, Ólafur Ragnar Grímsson, hafði veg og vanda af því að hefja þá ráðstefnu og hún setur Ísland á kortið sem stað þar sem aðilar sem hafa áhuga á norðurslóðamálum koma saman. Arctic Circle hefur í kjölfarið haldið minni viðburði víða, ekki bara á norðurslóðum heldur líka í borgum víða annars staðar. Mér finnst að íslenskir þingmenn ættu að vera viðstaddir slíkar ráðstefnur. Það er kannski ótengt þessari skýrslu hér, en á heima í umræðunni um alþjóðastarf og um norðurslóðamál, hvort ekki væri eðlilegt að horfa til þessarar þingmannanefndar, stækka hana og gefa rými í fleiri ráðstefnur, fleiri fundi og annað og meira alþjóðastarf sem lýtur að norðurslóðamálum.

Það kom vel fram í ræðu hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar hvað er að gerast almennt á norðurslóðum, og einstaklega áhugaverð lesning hér í skýrslunni að lesa það sem fundarmenn hafa verið að tjá sig um. Og ég er sammála því sem hv. þingmaður sagði: Spennan fer vaxandi. Þá hefur komið upp það vandamál, ef svo má að orði komast, hvar á að ræða um vaxandi spennu á norðurslóðum? Þarf einhvern annan vettvang fyrir það eða þarf kannski að breyta þessum vettvöngum og öðru? Ég ætla ekki að þykjast geta svarað þeirri spurningu en ég held að það sé svo mikilvægt, og mér fannst hv. þingmaður koma ágætlega inn á það, að við erum jú að glíma við loftslagsógnina og hún fer vaxandi. En við erum líka að tala um fólk sem býr á norðurslóðum og mér þykir mikilvægt að við ræðum um norðurslóðir í því samhengi. Þess vegna er yfirskriftin á formennsku okkar í Norðurslóðaráðinu svo fín, „Saman til sjálfbærni á norðurslóðum“, og ég veit að við mörg hver, og ég þar á meðal, fögnuðum mjög því að orðin eru forsetaskipti í Bandaríkjunum þar sem maður óttaðist það mikið og fannst það mjög miður, svo ekki sé vægara til orða tekið, að Bandaríkjamenn drægju sig út úr Parísarsamkomulaginu.

Mér finnst líka áhugavert að lesa í skýrslunni að þegar Aaja nokkur Larsen, sem er grænlenskur þingmaður á danska þinginu, spurði bandaríska fulltrúann Lisu Murkowski, sem er repúblikani frá Alaska, hvort hún teldi áhuga Bandaríkjanna á Grænlandi minnka með nýjum forseta þá sagðist Murkowski hafa haft áhyggjur af því hversu litla áherslu ríkisstjórn Obama hefði lagt á fólk á norðurslóðum og eingöngu horft til loftslagsbreytinga en hún vonaðist til að Biden myndi eftir því að fólk byggi á norðurslóðum. Hún sagðist búast við góðum samskiptum við Grænland með nýrri ríkisstjórn og nýrri ræðismannsskrifstofu í Nuuk. Í kjölfarið spurði hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson Murkowski líka um breytingar í samskiptum Bandaríkjanna og Íslands við forsetaskiptin og taldi hún ekki að neinar breytingar yrðu í því.

Mér þykir þetta áhugaverð sýn því á meðan loftslagsmálin eru stóra málið á norðurslóðum þá held ég að rödd okkar og annarra íbúa norðurslóða sé einmitt svo mikilvæg, að það sé ekki talað um norðurslóðamál í höfuðborgum þessara stóru ríkja, hvort sem það er í Evrópu, Bandaríkjunum, Rússlandi eða Kína eða hvar það er, þar sem norðurslóðir eru stundum bara settar í myndrænt samhengi, ís að bráðna og ísbjörn að synda eða deyja út. Það er mikilvægt að muna að þarna býr raunverulega fólk og að verkefni okkar er að finna leiðir til að fólk geti áfram búið á þeim slóðum. Það held ég að sé stóra verkefnið okkar í allri umræðu um norðurslóðir.

Ég hjó líka eftir því í skýrslunni, sem mér fannst mjög áhugavert, að þau hefðu fengið til sín rektor Háskóla norðurslóðanna, Lars Kullerud. Hér er tekið fram að ritaðar séu um 10.000 vísindagreinar um norðurslóðir á ári hverju, flestar á ensku eða rússnesku. Flestar eru um náttúruvísindi en félagsvísindin eru vanrækt, aðeins um 1% af rannsóknarfé á heimsvísu fer í þær greinar á norðurslóðum. Nú erum við víða í okkar háskólakerfi með alls konar rannsóknir á norðurslóðum en Háskólinn á Akureyri og þær skrifstofur sem þar eru hafa fjallað sérstaklega um félagsvísindin. Ég held að við séum mjög framarlega á því sviði og má segja að þarna sé kannski ákveðin sylla fyrir okkur í rannsóknarheimi norðurslóðamála, þ.e. fyrir þessar félagsvísindarannsóknir, og í því held ég að felist tækifæri. Ég held að það felist líka tækifæri í því sem ég nefndi hér áðan varðandi Arctic Circle og í því að Ísland yrði ákveðinn staður þar sem fólk kæmi saman til að ræða þessi mál. Við ræðum oft um norðurslóðir og það er auðvitað ýmislegt að breytast og tækifæri í siglingaleiðum og slíku geta verið að opnast. En ég held, virðulegur forseti, að tækifærin okkar liggi fyrst og fremst í því að virkja hugvitið og finna leiðir í rannsóknum og nýsköpun og þá að leiða saman þekkingu á sviði norðurslóðamála. Það kann að vera á sviði félagsvísinda eða náttúruvísinda, mér finnst að þarna liggi stóra tækifærið okkar í norðurslóðamálum og ég vildi gjarnan sjá okkur þróa það tækifæri áfram. Við þurfum líka að taka afstöðu til ýmissa annarra mála er lúta að norðurslóðum. En þarna held ég að liggi tækifæri og það ýtir enn frekar undir þá skoðun mína að mér finnst mikilvægt að við setjum norðurslóðamál meira inn í alþjóðasamstarf okkar hér á þinginu, í þingmannastarfið. Mér finnst við þurfa fleiri þingmenn sem taka þátt í því starfi, sem tala röddu Íslands út á við og afla sér þessarar mikilvægu þekkingar og hafa þá tækifæri til að taka þátt í ýmsum viðburðum er lúta að norðurslóðamálum.