151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

norðurskautsmál 2020.

498. mál
[18:48]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þetta, hv. þingmaður, og tek undir að það er mjög víða áhugi utan norðurslóða. Ég get nefnt að ég hef tekið á móti sendinefndum þingmanna, bæði frá Japan og Suður-Kóreu, og það var tvennt sem þessar þingmannanefndir vildu einna helst ræða við okkur. Það voru norðurslóðamál og jafnréttismál. Ég hef oft nefnt þetta hér. Ég tek undir það með hv. þingmanni að það eru einmitt mjög margir vettvangar. Ég var alls ekki með mínum orðum að segja að við þyrftum að búa til nýjan vettvang. Ég er reyndar að segja að í alþjóðastarfi þingsins ætti þessi þingmannanefnd kannski að heita eitthvað annað, vera jafnvel fleiri þingmenn og hafa tækifæri til að hafa yfirsýn yfir fleiri samstarfsmöguleika, ekki bara SCPAR og sjálfa ráðstefnuna. Það er kannski bara það sem ég er að leggja til og er meira um innra starf þingsins, virðulegur forseti. Ég er ekki að tala um einhvers konar miðstöð eða að búa til eitthvað nýtt. En við Íslendingar getum notfært okkur þetta. Ég velti líka upp að við höfum stundum verið að horfa á þessi risastóru tækifæri í norðurslóðamálum, umskipunarhöfn og björgunarmiðstöð og fleira, allt mjög góðar og gildar hugmyndir og umræður sem við þurfum að þróa áfram. Ég er kannski að segja að þegar kemur að því hversu stórt Ísland eigi að vera í norðurslóðaheiminum, þá séu tækifæri í því að leiða saman fólk, efla vísindi, rannsóknir og nýsköpun. Þar geti Ísland skipað stóran sess og stórt hlutverk. Og eins og hv. þingmaður kom inn á er áhuginn mjög víða. Í kringum norðurslóðir er að aukast spenna. Hún er svolítið drifin áfram af stóru þjóðunum og ákveðnum átökum þar á milli og þá geta oft einmitt lítil ríki komið að gagni í að leiða fólk (Forseti hringir.) saman í umræðu um eitthvað annað en nákvæmlega það sem stórveldin vilja stundum leggja áherslu á.