151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

norðurskautsmál 2020.

498. mál
[18:50]
Horfa

Frsm. ÍNSM (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við erum enn sammála, ég og hv. þingmaður. Það segir okkur bara að stundum geta vinstri og hægri verið sammála, það er ekki flóknara en það. Við skulum þá leggja okkar lóð á vogarskálina hér á þingi til að efla norðurslóðastarfið. En mig langar aðeins að koma inn á annað í þessu sambandi og það er endurskoðun alþjóðastarfsins sem við tökum bæði þátt í. Ég hef hugmyndir um það að t.d. þessi nefnd sem ég er í eigi að stækka. Við erum þrír þingmenn, þeir ættu að vera fimm. Nú eru sex í vestnorrænu nefndinni og ég ætla ekki að leggja til að þeim verði fækkað, kannski um einn, en alla vega er það ekki tillaga mín, þau þurfa að vera mörg líka. Það þarf að nýta fjarfundabúnað út í ystu æsar til að halda þessu starfi mjög lifandi, fjölga fundum á vissan hátt. En þegar allt kemur til alls þá held ég að hnífurinn standi svolítið í kúnni með fjölda þingmanna. Við erum 53 í raun sem stundum allt þetta nefndarstarf. Ég er í tveimur fastanefndum, tveimur öðrum nefndum og tveimur starfshópum núna, er í sex hópum. Ég veit að allir þingmenn eru önnum kafnir. Ég held að það sé löngu kominn tími til að bæta við þingmönnum. Ég ætla ekki að nefna töluna, það kann að vera of bratt, en þjóðinni hefur fjölgað, málunum hefur fjölgað, umsvifin verða æ meiri og það verður að bregðast við því.