151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

norðurskautsmál 2020.

498. mál
[18:53]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Við erum einmitt oft sammála á útivelli og það er mikilvægt að vera það. En það var ágætt að hv. þingmaður kom inn á þetta því að þá getum við verið ósammála um eitt. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölga þingmönnum á íslenska þinginu ef það var það sem hv. þingmaður var að leggja til. En aftur á móti er ég sammála um að það þurfi að fjölga þingmönnum sem fjalla um norðurslóðamál og útvíkka þessa nefnd. Hv. þingmaður kom aðeins inn á Vestnorræna ráðið. Jú, þar eru sex þingmenn og að mörgu leyti er það of mikið í samanburði við annað alþjóðastarf hér á þinginu. Það er aftur á móti til komið vegna þess að í því þingmannasambandi eru auðvitað bara þrjú ríki og það þarf ákveðna stærð á slíkan vettvang til að hann fúnkeri. Það eru sex þingmenn frá hverju landi. Þannig að ég held að það gæti verið einhver leið í þessum efnum. Ég ítreka bara það sem ég sagði áðan um umræðuna um norðurslóðamál, mikilvægi norðurslóðamála í allri utanríkispólitík okkar er svo mikið að mér finnst ástæða til að útvíkka þetta og nota sem ákveðið tækifæri.