151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

NATO-þingið 2020.

500. mál
[19:15]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir skýrslugjöfina. Nú er þetta bandalag umdeilt eins og hv. þingmaður veit. Það er tvennt sem mig langar að nefna, annars vegar þessa spennu, lágspennu eða hvað menn vilja kalla það, á norðurslóðum, þar sem þetta gengur dálítið eins og ping-pong, sumir kalla þetta spíral. Það er á víxl verið að bregðast við einhverjum ógnum, heræfingu eða nýjum vopnum eða hvað það er. Þá langar mig að heyra vangaveltur hv. þingmanns um hvernig væri hægt að rjúfa þann vítahring sem ég vil kalla. Hvað ef annar aðilinn drægi jafnvel úr viðbúnaði eða æfingum eða hvaðeina? Það er önnur spurningin. Hin varðar mál málanna sem er kjarnorkuvígbúnaðurinn. Nýlega voru mörg ríki búin að skrifa undir og fullgilda sáttmála Sameinuðu þjóðanna um afnám kjarnorkuvopna en NATO-ríkin hafa ekki viljað gera það. Mér þætti gaman að heyra röksemdina fyrir því, hún gæti verið hv. þingmanns eða bara NATO, það sem hann bergmálar þaðan. En þetta liggur mér mjög þungt á hjarta vegna þess að ég held að þetta sé einhver óhugnanlegasta ógn sem vofir yfir, ekki bara hlýnun jarðar, sem við þurfum að taka tillit til, eða Covid heldur tilvist kjarnorkuvopna í alls konar höndum.