151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2020.

499. mál
[19:24]
Horfa

Frsm. ÞEFTA (Smári McCarthy) (P):

Herra forseti. Ég flyt hér skýrslu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES fyrir árið 2020. Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, og Evrópska efnahagssvæðið, EES, gegna veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 30 önnur Evrópuríki með rúmlega 460 milljóna manna markað eftir útgöngu Bretlands úr ESB, sá markaður minnkaði þá um einar 40 milljónir manna, held ég að það sé. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp öflugt net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki.

Heimsfaraldur Covid-19 setti mark sitt á starf þingmannanefnda EFTA og EES á árinu eins og auðvitað allt annað alþjóðastarf Alþingis. Nefndirnar löguðu sig að breyttum aðstæðum með því að færa starf sitt yfir í fjarfundaform. Í stað hefðbundinna fundarhalda í aðildarríkjum EFTA og í starfsstöðvum Evrópuþingsins voru skipulagðir fleiri og styttri fjarfundir. Heimsfaraldurinn sjálfur og áhrif hans á EES-samstarfið var í brennidepli í starfi þingmannanefndanna á árinu. Farið var reglulega yfir stöðu faraldursins í einstökum aðildarríkjum EFTA, efnahagsleg áhrif hans og viðbrögð stjórnvalda. Þá var fjallað um ýmist samstarf EFTA og ESB honum tengt. Í upphafi faraldursins tókst t.d. giftusamlega að flytja Evrópubúa heim sem orðið höfðu innlyksa í fjarlægum heimshlutum þegar flugsamgöngur minnkuðu og stöðvuðust sums staðar þegar ströngum ferðatakmörkunum var komið á. Þá var EFTA-ríkjunum veitt undanþága frá banni ESB við útflutningi hlífðarbúnaðar fyrir heilbrigðisstarfsmenn. Þátttaka EFTA-ríkjanna í sameiginlegum pöntunum og innkaupum ESB á bóluefni var nefnd sem einkar mikilvæg svo og samvinna sóttvarnayfirvalda og lyfjastofnana EFTA-ríkjanna við sambærilegar stofnanir innan ESB. Enn fremur var samráð um þær heimildir og svigrúm sem regluverk EES-svæðisins um ríkisstyrki felur í sér einkar mikilvægt þegar ríkissjóðir Evrópuríkja gripu með fordæmalausum hætti inn í hagkerfin í því skyni að verja störf og fyrirtæki og koma þannig í veg fyrir enn dýpri efnahagskreppu.

Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA að venju. EFTA hefur verið í fararbroddi á heimsvísu í gerð fríverslunarsamninga og eru gildir samningar nú 29 talsins og taka til 40 ríkja. Samanlagt eru þessi fríverslunarsamstarfsríki næststærsti útflutningsmarkaður EFTA á eftir ESB með 12% hlutdeild í vöruútflutningi EFTA. Heimsfaraldurinn markaði fríverslunarstarf EFTA á árinu eins og aðra þætti í starfseminni. Það hægðist á viðræðum við ný samstarfsríki í heimsfaraldrinum þótt þeim hafi að hluta verið haldið gangandi með notkun fjarfundabúnaðar. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga EFTA og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð slíkra samninga. Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA átti í því skyni fjarfundi með forystufólki í taílenska þinginu og viðskiptaráðuneytinu á árinu. Búist er við að formlegar fríverslunarviðræður EFTA og Taílands hefjist að nýju árið 2021 eftir að hafa legið niðri um árabil.

Loks var ítrekað fjallað um framtíðarsamband EFTA-ríkjanna við Bretland eftir útgönguna úr ESB og þar með EES. Af öðrum málum sem voru ofarlega á baugi þingmannanefnda EFTA og EES má nefna viðskiptastefnu Evrópusambandsins, ákvæði fríverslunarsamninga um annars vegar rafræn viðskipti og hins vegar um vinnuvernd og sjálfbæra þróun, og gagnsæi í fríverslunarviðræðum.

Til aðeins nánari útskýringar þá myndar Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES sendinefnd Alþingis bæði í þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES. Þá myndar Íslandsdeildin ásamt fjórum þingmönnum úr utanríkismálanefnd sendinefnd Alþingis í sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og ESB. Ég ætla ekki að fara yfir alla sögu þingmannanefndanna að sinni þó svo að það sé áhugaverð og merkileg saga, það tæki mjög langan tíma. En þetta er allt að finna í skýrslunni og er mjög greinargott. Ég ætla frekar að fjalla nánar um starfsemina sem, eins og ég nefndi, markaðist rosalega mikið af heimsfaraldri Covid-19. Í stað hefðbundinna fundarhalda vorum við með fleiri og styttri fjarfundi, samtals 12 talsins eða 11 fjarfundi og svo var einn fundur sem við náðum í Brussel 4. febrúar. Ég ætla ekki að fara út í öll atriðin sem komu fram á öllum fundunum en ég ætla að stikla á stóru og draga upp ákveðna mynd. Það eru mikið til sömu þemu sem koma upp á mörgum af þessum fundum. Þetta snýst alltaf á endanum um fríverslunarmál Íslands og annarra EFTA-ríkja og EES-ríkja. Ég ætla bara að reyna að gefa ágrip af því helsta.

Fundur þingmannanefndarinnar í Brussel var haldinn 4. febrúar, fjórum dögum eftir Brexit, þ.e. útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Daginn fyrir fundinn kynnti Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB fyrir Brexit og jafnframt fyrir viðræður um framtíðarsamband ESB við Bretland, drög að samningsafstöðu ESB fyrir komandi samningaviðræður. Þá hélt Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ræðu í Greenwich þar sem hann lagði fram sýn bresku ríkisstjórnarinnar fyrir framtíðarsambandið. Á fund okkar komu Clara Martinez-Alberola, varaformaður starfshóps framkvæmdastjórnar ESB fyrir sambandið við Bretland, Hermione Gough, yfirmaður samstarfsmála Bretlands og ESB í fastanefnd Bretlands gagnvart ESB, og Rem Korteweg frá utanríkismálastofnun Hollands. Það kom margt fram í umfjölluninni þar, m.a. varðandi drög að samningsafstöðu Evrópusambandsins. Það var lagt upp með einn samning sem ætti að ná yfir öll svið samstarfsins. Við hittum líka á þeim fundi Phil Hogan, sem á þeim tíma fór með viðskiptamál fyrir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þar sem hann fór yfir viðskiptastefnu sambandsins og hann fjallaði m.a. um mikilvægi samstarfsins við EFTA-ríkin sem hefðu verið þriðji stærsti viðskiptaaðili Evrópusambandsins á eftir Bandaríkjunum og Kína með 10,5% hlutdeild í heildarviðskiptum Evrópusambandsins. Í máli hans kom fram að stóru áskoranirnar nú væru viðskiptasambandið við Kína, Bandaríkin og svo auðvitað framtíðarsamband Evrópusambandsins við Bretland.

Annar fundur þingmannanefndarinnar, fjarfundur, var haldinn 23. apríl og þar fórum við nánar yfir það sem hefur verið kallað evrópska módelið í viðbrögðum við faraldrinum. Þá var faraldurinn náttúrlega kominn af stað og rætt um stórfellda útgjaldaaukningu þar sem lögð var áhersla á að verja störf með því að ríkið tæki tímabundið þátt í launakostnaði fyrirtækja í þeim geirum hagkerfanna sem höfðu orðið verst úti. Það var áhugavert að heyra mismuninn á nálgun t.d. Norðmanna, Svisslendinga og Íslands í því og auðvitað líka hvernig Evrópusambandið hafði nálgast þessi mál.

Ég ætla að hoppa yfir nokkra fundi, þetta kemur allt saman fram í skýrslunni, en mig langar að nefna að á fjarfundi þingmanna og ráðherra EFTA 8. júní var umfjöllun um fríverslunarsamninga EFTA og þar kom fram, eins og ég nefndi áðan, að samningarnir eru 29 talsins og ná til 40 ríkja. Samanlagt væru fríverslunarsamstarfsríkin næststærsti útflutningsmarkaður EFTA á eftir ESB með 12% hlutdeild í vöruútflutningi EFTA. Yfirstandandi viðræður við ný samstarfsríki hefðu tafist í heimsfaraldrinum en væri þó haldið gangandi að einhverju leyti með notkun fjarfundabúnaðar. Vinna við lagalega yfirferð á fríverslunarsamningi Mercosur, sem er tollabandalag fjögurra Suður-Ameríkuríkja, Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrúgvæ, hefði þannig dregist á langinn en ráðgert væri að undirrita samninginn þegar yfirferðinni væri lokið. Raunar kom fram á fundi 27. október að lagalega yfirferðin væri fyrirliggjandi þannig að í rauninni er ekkert lengur sem stendur í vegi fyrir því að það klárist. Sömuleiðis hefðu viðræður við Indland, Malasíu og Víetnam reynst erfiðar. Það er auðvitað margt sem stendur í vegi fyrir því að ná árangri þar. Það eru yfirstandandi viðræður við Síle og tollabandalag Suður-Afríku um að uppfæra fríverslunarsamninga EFTA við þessa aðila.

Ég nefndi fundinn okkar 27. október þar sem var farið yfir sömu hluti en líka talað um að vonir stæðu til að formlegar fríverslunarviðræður við Moldóvu, Kósóvó og Taíland myndu hefjast á árinu 2021. Enn fremur kom fram að mikil áhersla væri lögð af hálfu Íslands og Noregs á að vinna að uppfærslu á fríverslunarsamningi EFTA við Kanada.

Á árinu var líka farið yfir vinnu innan EFTA að stöðluðum texta um rafræn viðskipti fyrir fríverslunarsamninga EFTA. Textinn er ætlaður til nota í öllum viðræðum um nýja og uppfærða fríverslunarsamninga sem þá fengju sérstakan kafla um þetta málefni, þ.e. rafræn viðskipti. Þetta skiptir máli vegna þess að þegar menn ganga að samningaborðinu er gott að hafa einhvern grundvöll og með því að fara yfir grunninn og hafa staðlaða texta tilbúna fyrir alla helstu kafla ríkir skilningur milli EFTA-ríkjanna um það hver upphafssamningsstaða okkar sé en líka hvers er að vænta af okkur í samningaviðræðunum.

Það var líka farið yfir vinnu innan EFTA við endurskoðun kafla um vinnuvernd og sjálfbæra þróun sem verið hefur í öllum fríverslunarsamningum EFTA frá árinu 2010. Það er mjög margt að gerast þar.

Nú hoppa ég aftur yfir fullt af merkilegum hlutum, en bara til þess að nefna hvers konar merkilega hluti ég er að stökkva yfir þá er það t.d. sameiginlegt innkaupakerfi innan EES-svæðisins og möguleg þátttaka í því, einnig hvernig innleiðingin á þriðja orkupakkanum, fjármálapakkanum, hefði átt sér stað hér á Íslandi og að vonir stæðu til um skjóta innleiðingu á umhverfisvæna orkupakkanum, sem er, svo ég nefni það, ekki fjórði orkupakkinn. Þetta er umhverfisvænn orkupakki sem snýr að því að nýta síður jarðefnaeldsneyti við raforkuframleiðslu. Það er mjög margt sem átti sér stað. En ég ætla að nefna að í umræðu um samvinnu á tímum Covid-19 faraldursins þá áttum við samtal á fundi sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins 9. nóvember þar sem Zdzislaw Krasnodebski og Sigríður Á. Andersen fluttu framsögu. Þar hrósaði Krasnodebski íslenskum stjórnvöldum fyrir hversu vel hefði verið tekist á við faraldurinn á Íslandi með reglubundnum skimunum og rakningu smita. Þá var hann forvitinn að vita af hverju smitum færi fjölgandi í seinni bylgju faraldursins og hafði jafnframt áhuga á að heyra nánar um nýjar hömlur sem Ísland hefði sett á ferðalög. Þetta nefni ég til að undirstrika að það er virkt samtal í gangi milli þingmanna Íslands og Evrópusambandsins um þessi mál til þess einmitt að við skiljum hvert annað betur, vitum hvað er að gerast og getum jafnvel leiðbeint hvert öðru eftir atvikum. Þetta samtal var mjög gagnlegt að því leyti.

Að lokum vil ég nefna fjarfund þingmannanefndar EES 16. nóvember þar sem var m.a. fjallað um mikilvægi þess að koma þeim skilningi út í samfélögin í okkar löndum, Íslandi, Liechtenstein og Noregi, að EES-samstarfið stendur sterkum fótum. Það þurfi þó að auka upplýsingagjöf til almennings um kosti þess, í rauninni bæði EFTA- og ESB-hlið samstarfsins. Ég nefni þetta kannski ekki síst vegna þess að það hafa komið upp mörg dæmi um vanþekkingu, jafnvel innan evrópska stjórnkerfisins, á því hvernig EES virkar og hvaða hlutverki það gegnir, svo ekki sé talað um hjá fyrirtækjum sem eru í rauninni hluti af innri markaðnum, rétt eins og við, en vita ekki af því að Ísland og Noregur og Liechtenstein séu innan innri markaðarins. Þetta er samtal sem við þurfum að vera duglegri að eiga og koma á framfæri til þess að verja betur hagsmuni okkar en ekki síst til að afmarka okkar sess innan samstarfsins með skýrari hætti. Annars er hætt við því að lagasetning og annað verði ekki endilega okkur í vil og að viðskipti okkar verði í rauninni hömluð þó svo að allar lagalegar forsendur fyrir viðskiptunum liggi fyrir.

Ég ætla ekki að fara nánar út í aðra einstaka fundi. Það var náttúrlega mjög margt annað sem gerðist og í rauninni var þetta mjög öflugt ár hjá þingmannanefnd EFTA og EES þrátt fyrir heimsfaraldur. Ég held að það sé full ástæða til að þakka sérstaklega ritara nefndarinnar, Stíg Stefánssyni, fyrir að halda virkilega vel utan um alla vinnu okkar og minna mig oft á þegar ég er að gleyma einhverju sem ég á að muna, svo ekki sé talað um að hjálpa okkur almennt við að koma hlutunum vel frá okkur. Það er líka ástæða til að þakka öllum kollegum okkar í norska þinginu og því svissneska og liechtensteiníska fyrir sín störf og góða samvinnu þar sem mig grunar að þetta verði síðasta skýrslan sem ég flyt sem formaður þessarar nefndar. Þetta er búið að vera virkilega gefandi og gott starf undanfarin fjögur ár þannig að ég er mjög spenntur fyrir því að reyna að ljúka þessu með trompi. Það er margt fram undan hjá okkur í ár, og ég á ekki von á öðru en að starfið verði öflugt til framtíðar.