151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

framfærsluviðmið og rekstrarkostnaður heimila.

[13:19]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir fyrirspurnina. Það hefur verið þannig að félagsmálaráðuneytið og velferðarráðuneytið sem var, hafa haft það hlutverk að birta þessi framfærsluviðmið, en þau hafa verið reiknuð af utanaðkomandi aðilum. Það hefur ekki verið ráðuneytið sjálft sem ákveður hver framfærsluviðmiðin eru, þetta eru ekki pólitískar ákvarðanir, heldur hefur þetta verið reiknuð stærð. Og einmitt fyrir tveimur árum, þegar framfærsluviðmiðið lækkaði, þá fannst okkur og mér það mjög sláandi að það væri að lækka við þær aðstæður vegna þess að það gaf ekki raunsanna mynd. Framfærsluviðmiðið er notað til viðmiðunar við ýmsar ákvarðanir sem teknar eru hér og þar í stjórnkerfinu, bæði hjá sveitarfélögum og ríkinu. Það var einmitt á grundvelli þessarar lækkunar á sínum tíma sem við settum af stað vinnu við að endurskoða framfærsluviðmiðið og sú vinna hefur staðið yfir. Við höfum verið í samvinnu m.a. við háskólasamfélagið og Hagfræðistofnun um það.

Ég á von á því að við munum sjá breytingar á samsetningunni á framfærsluviðmiðinu og þeim þáttum sem þar eru inni, hvort eðlilegt sé að taka tillit til fleiri þátta, t.d. húsnæðismála sem hv. þingmaður nefndi. Það er gríðarlega mikilvægt að framfærsluviðmið sýni fram á raunsanna mynd og það gerir það að mínu viti ekki. Mig minnir að komið hafi sérstök fréttatilkynning þegar við birtum þetta umrædda framfærsluviðmið sem lækkaði fyrir tveimur árum og tilkynntum jafnframt að full rök væru fyrir því að fara í endurskoðun á samsetningu þess. Sú vinna stendur yfir.