151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

framfærsluviðmið og rekstrarkostnaður heimila.

[13:23]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég taldi mig hafa verið nokkuð skýran í mínu máli en ég skal ítreka það sem ég sagði. Við notum framfærsluviðmið mjög víða í stjórnkerfinu, bæði ríki og sveitarfélög, og þess vegna er mikilvægt að uppbyggingin á því sé þannig að hún skapi sem raunsæjasta mynd af því sem um ræðir. Hv. þingmaður vitnar til ákveðinna þátta sem lúta að þessu (Gripið fram í.) og ég get bara sagt við hv. þingmann að ég er sammála. Þess vegna settum við þessa vinnu af stað. En það er hins vegar þannig að samsetningin á viðmiðinu, hvernig það er reiknað, hvaða forsendur eru þar inni — það er sú vinna sem er í gangi. Það eru ekki stjórnmálamenn sem taka síðan ákvörðun á hverju ári pólitískt um það hvert þetta viðmið verður, heldur þurfum við að taka ákvörðun pólitískt um það hvernig samsetningin á því er. Það var það sem ég sagði að hefði ekki gengið þegar þetta kom fyrir tveimur árum. Sú vinna er í gangi því að við viljum að framfærsluviðmiðið skapi sem raunsannasta mynd af stöðunni vegna þess að það er notað bæði af ríki og sveitarfélögum í útreikningum, frádrætti og fleiru sem þessu tengjast. (Forseti hringir.) Þannig að ég og hv. þingmaður erum bara 100% sammála í þessu.(IngS: Nei, alls ekki.)