151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[14:04]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að geyma þingrofsumræðuna að öðru leyti en því að segja að mér finnst ákvæðið eins og það lítur út í dag fara hálfa leiðina í einhverja átt án þess að ná áfangastað. Ég myndi segja að vilji menn gera það, eins og mér heyrist hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vilja, að það sé skýrt að það er bara þingið sjálft sem eitt hefur möguleika á því að ljúka starfstíma sínum með þingrofi þá sé einhvern veginn gengið frá því með skýrum og skilmerkilegum hætti. En það eru fleiri sjónarmið í því sem ég myndi vilja reifa.

Annað atriði sem ég náði ekki að koma inn á í fyrra andsvari mínu varðaði gamla hugmynd sem hér skýtur upp kollinum um að það sé á einhvern hátt til framfara að þingmál lifi fleiri en eitt þing, þ.e. innan kjörtímabils. Ég get verið sammála því sem lesa má út úr ákvæðinu, eins og það kemur fram í frumvarpinu, að það getur verið rétt að slíkt sé einfaldlega ákvörðun sem þarf að taka í þingsköpum, að stjórnarskráin sé skýr um að þetta sé ákveðið með þingsköpum og þar sé hægt að taka þessa ákvörðun, þ.e. um það hversu lengi þingmál lifa. Það sem ég hef áhyggjur af í þessu sambandi er að ég held, ef svo má að orði komast, að það færist bara til einhver stífla í málsmeðferð í þinginu með því að gera þetta með þessum hætti, hugsanlega þannig að í staðinn fyrir að við þurfum í lok hvers þings, eins og hæstv. forseti nefndi, að takast á við það hvaða mál eru kláruð og hver ekki þá ýti menn vandanum á undan sér undir lok kjörtímabils þannig að við stöndum þá með enn hærri stíflu og meiri málafjölda sem bíður afgreiðslu á því stigi. Ég vildi bara reifa í þessu sambandi að ég er ekki viss um að þetta leiði til vandaðri málsmeðferðar. Ég er ekki viss um að þetta leiði til þess að umfjöllun í þinginu verði í meiri samfellu og skýrari. Stundum er bara ágætt að menn núllstilli sig aðeins, taki frumvörpin aftur, endurskoði þau og leggi þau fram í nýrri mynd.