151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[14:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins um þingrofið og í raun í tengslum við þingfrestun sem er framkvæmdarvaldsathöfn og það að kveðja þingið aftur saman þegar fundum þess hefur verið frestað, að vísu með samþykki þingsins sjálfs. Það má segja að aðeins hafi reynt á þetta þegar óskað var eftir því að þing kæmi saman milli jóla og nýárs. Forseti Alþingis, hvað gat hann gert? Jú, hann gat eingöngu svarað mönnum því að það væri ekki í hans valdi. Alþingi sjálft gæti ekki ákveðið að það kæmi saman til fundar þó að mikið lægi við. Það er framkvæmdarvaldsathöfn á meðan á slíku ástandi stendur. Það finnst mér ekki við hæfi. Mér finnst það ekki eiga að vera svoleiðis. Í raun og veru er þá stutt yfir í þingrofið.

Menn verða auðvitað að svara því fyrst í grunninn hvers konar skipulag þeir vilja. Erum við ekki að tala um þingræði, þingræðisreglu, þingbundna ríkisstjórn? Umboðið er sótt hingað. Og er þá ekki eðlilegt að það sé líka hér sem menn taka endanlega ákvörðun eða að héðan þurfi að koma upplýsingar um hvort staðan sé komin í þrot og það sé ekkert annað að gera en að kjósa? Þá bara verður það.

Varðandi það að mál lifi milli þinga. Já, kannski þarf aðeins meiri tíma til að ræða það. Ég er sammála hv. þingmanni að þennan möguleika, sé hann opnaður, þarf að umgangast af varfærni. Ég held að hyggilegt sé að hugsa sér að í þingsköpum yrðu stigin varfærin skref í fyrstu og látið á þetta reyna. Þess vegna sé ég það kannski þannig fyrir mér, eins og ég hugleiddi aðeins í framsöguræðu minni, að ef það er vilji þingnefndar, sem hefur lagt gríðarlega vinnu í mál, að óska eftir því að fá að halda áfram við það á næsta kjörtímabili þá sé slík ákvörðun borin undir salinn, hún sé borin undir Alþingi í heild. Það má vel hugsa sér að slíkt sé aðeins hægt einu sinni, aðeins að færa viðkomandi mál yfir á næsta þing og þar með búið. Það er meira að segja hægt að hugsa sér að því fylgi skylda um að það mál skuli fá lyktir á seinna þinginu, það skuli gera grein fyrir því hvað eigi að gera við það. Menn geta kallað það afskrift ef þeir vilja. (Forseti hringir.) Að sjálfsögðu þarf að passa upp á að þetta leiði ekki til einhverrar uppsöfnunar og það má alveg hugleiða hvort við ættum, eins og Norðurlandaráð, að vera með þann möguleika að afskrifa mál, ef það er orðin niðurstaða þingsins að gera ekkert meira með það.