151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[14:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get að því leyti til verið sammála hv. þingmanni að auðvitað er það ákveðin sóun, margverknaður, að þingmál sé endurflutt þing eftir þing og dagi uppi í nefnd. En þá bendi ég á að það er ekkert endilega víst að flutningsmönnum málsins hafi aðallega gengið það til að fá málið afgreitt og þaðan af síður samþykkt. Það gerist nefnilega að þingmenn flytja mál, sérstök hugðarefni sín, sem þeir kannski hafa ástæðu til að ætla að ekki sé mikill stuðningur við, þeir séu tiltölulega einir um þá skoðun. En þeir vilja halda málinu á dagskrá. Þeir vilja fá um það umræðu. Þeir vilja gjarnan ýta undir umræðu úti í samfélaginu með því að málið verði sent til umsagnar vitandi þó að kannski er ólíklegt að það njóti stuðnings og fáist afgreitt. Dropinn holar steininn og þingsagan geymir mörg dæmi um að þannig hafa mál lagt af stað sem smátt og smátt hafa áunnið sér stuðning og sess og orðið að lögum að lokum. Ég gæti nefnt fjöldamörg dæmi. Ég hef sjálfur líklega flutt 11 sinnum frumvarp um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og skoðanasystkin mín tvisvar til þrisvar í viðbót þegar ég hef verið ráðherra. Mér hefur verið það alveg ljóst að þetta væri sennilega minnihlutasjónarmið, því miður, svo ótrúlegt sem það nú er í landi sem segist vilja vera án kjarnorkuvopna. En alveg frá 1986, líklega, hef ég og skoðanasystkini mín haldið þessu máli á dagskrá, verið með það hér til umræðu og komið því inn í utanríkismálanefnd þar sem það hefur því miður ekki notið afgerandi stuðnings fram að þessu og það er m.a. í þessum tilgangi. Það var ekki endilega þannig að ég gerði mér vonir fyrir fram um afgreiðslu á málinu heldur að hafa það á dagskrá. Við megum ekki gleyma þessum þætti líka. En auðvitað er hin hliðin á því sú að þetta (Forseti hringir.) getur leitt til ákveðinnar uppsöfnunar og upphleðslu. Það mætti alveg hugsa sér þetta, sem ég kom aðeins inn á í fyrra andsvari, að það að mál gætu færst milli þinga tengdist þá einhvers konar afskriftar- eða lúkningarskylda í lokin.