151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[14:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði í frumvarpinu sem ég ætla að nefna hér við 1. umr. Áður en ég reifa einstakar greinar vil ég taka fram að ég hef ekki athugasemdir við það verklag og vinnulag sem hæstv. forsætisráðherra hefur lagt upp með í þessu máli. Ég styð þá nálgun sem unnið hefur verið eftir, að rétt sé að taka fyrir einstaka kafla og reyna eftir atvikum að ná sem víðtækastri samstöðu um þá. Eins og kunnugt er náðist ekki full samstaða meðal formanna flokkanna um þær breytingar sem hér er verið að takast á við. Frumvarpið er því lagt fram af hæstv. forsætisráðherra einum og má segja að með því sé nokkur óvissa um það hvernig framhaldi málsins verður háttað. Það er auðvitað þannig að við þær aðstæður er enginn flokkur og enginn þingmaður í þeirri stöðu að telja sig bundinn af því að styðja frumvarpið eins og það er lagt fram.

Varðandi þau atriði sem tæpt er á í frumvarpinu hef ég frá upphafi áskilið mér rétt til að hafa mínar skoðanir á þeim þáttum og ætla í þessari ræðu að nefna nokkur atriði í því sambandi. Ég hef reyndar skrifað um þetta áður. Í grein í Morgunblaðinu í síðustu viku nefni ég nokkra þætti, kannski ekki öll atriði sem ég tel ástæðu til að nefna en nokkur þeirra. Á meðan málið var í samráðsgátt síðasta sumar gerði ég líka nokkrar athugasemdir við ákveðin atriði og að einhverju leyti mun ég nefna þau atriði hér en verð að koma að öðrum atriðum seinna.

Varðandi forsetakaflann er það mín tilfinning, og hún hefur fremur farið vaxandi en hitt, að í þeim kafla, eða í þeim hluta frumvarpsins sem snýr að breytingum á I. og II. kafla stjórnarskrárinnar, sé að töluvert miklu leyti verið að breyta hlutum sem engin sérstök þörf er á að breyta en hins vegar er ýmislegt látið óhreyft sem ástæða gæti verið til að taka á.

Í þessu samhengi, áður en ég fer út í að nefna einstakar greinar, myndi ég segja að sú gagnrýni sem fram hefur komið fram að þessu, í umræðum á fyrri þingum og fyrri kjörtímabilum, varðandi þessa kafla stjórnarskrárinnar hefur að töluvert miklu leyti lotið að því að orðalag ákvæðanna endurspeglaði ekki praxísinn, ekki veruleikann eins og hann væri, og að það væri í sjálfu sér óskýrt að forseta væru með ýmsum ákvæðum falin ákveðin verkefni sem síðan væru í raun tekin af honum með öðrum ákvæðum. Þá er fyrst og fremst vísað til þeirra ákvæða sem fela í sér að forseti sé ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum, að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt og að ráðherrar beri ábyrgð á öllum stjórnarframkvæmdum. Í raun og veru á þetta ekki að vera neitt óskaplega flókið. Þó að á öðrum stöðum segi að forseti geri hitt og þetta má segja að þetta ákvæði, annars vegar um að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt og síðan að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum og forseti sé ábyrgðarlaus, geri það í raun og veru að verkum að það ætti að vera nokkuð augljóst að í þessum tilvikum er það ráðherrann sem fer með hið raunverulega vald en ekki forsetinn og aðkoma forsetans er formleg en ekki efnisleg.

Þetta ætti ekki að vera flókið. Þetta verður hins vegar stundum svolítið óljóst í umræðunni þegar menn fara að draga það fram að forseti ætti nú að láta það ógert að undirrita einhverjar stjórnarathafnir eða beita sér fyrir hinu og þessu. Ég segi: Hafi menn, í sambandi við undirbúning þessa frumvarps, ætlað sér að laga þennan þátt eða leiðrétta þennan misskilning þá erum við ekkert endilega komin í höfn. Þá erum við einfaldlega í þeirri stöðu að enn standa í stjórnarskránni ákvæði þar sem forseta eru falin ýmis verkefni en svo eru enn í gildi ákvæði sem gera það að verkum að forsetinn er ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum, að forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt og ráðherrarnir eru ábyrgir fyrir stjórnarframkvæmdum. Hafi ætlun frumvarpshöfunda verið sú að skýra þessa þætti myndi ég segja að það hafi ekki tekist. Þegar af þeirri ástæðu verð ég að lýsa miklum efasemdum við frumvarpið að þessu leyti. Breytingin að þessu leyti, sem kannski var rótin að því að yfir höfuð var farið að skoða forsetakaflann, hefur ekki náð árangri. Þetta vildi ég segja svona almennt.

Nú er ég þeirrar skoðunar, og allt í lagi að taka það fram, að verði gerðar breytingar á forsetakaflanum, eigi það að vera skýrt að hafi forseti á annað borð einhverja aðkomu að stjórnarathöfnum þá sé það bara formlegt en ekki efnislegt vald. Ef menn vilja ganga lengra er hægt að skrifa forsetann út úr þeim ákvæðum sem að honum lúta að þessu leyti þannig að það sé skýrt að æðsta handhöfn framkvæmdarvalds, þar sem á það reynir, sé í höndum ráðherra en ekki forseta. En nóg um það.

Ég ætla að nefna nokkur önnur atriði. Tíminn er takmarkaður þannig að ég verð að fara nokkuð hratt yfir sögu. Bara til að nefna nokkur atriði sem ég geri athugasemdir við, sleppi nú því sem ég er sáttur við. Ég verð að taka það fram að það eru ýmsar breytingar í þessu sem ég geri engar athugasemdir við og geta vel staðið, reyndar ekkert endilega brýn atriði sem eru að færast til betri vegar en atriði sem er allt í lagi að breyta. En ef ég kem að gagnrýnisþáttunum, og tek það fram að í stuttri ræðu verð ég að fara mjög hratt yfir sögu, þá staldra ég fyrst við ákvæði 2. gr. um aðferðina við forsetakjör. Ég held að það sé tímabært að breyta meðmælendafjölda og mætti jafnvel ganga lengra en gert er í frumvarpinu í því að gera kröfu um fjölda meðmælenda. En við það sem hér er tiltekið má alveg lifa. Ég mun hins vegar ekki fallast á forgangsröðunaraðferðina sem þarna er lögð til, sem var reyndar ekki í frumvarpinu í samráðsgátt heldur dúkkaði upp miklu seinna, og ég tel að sé algjör óþarfi. Það er algjör óþarfi að fara út í forgangsröðunaraðferðina. Ef þingið teldi að það væri með einhverjum hætti nauðsynlegt eða mikilvægt að knýja fram meiri hluta á bak við sitjandi forseta held ég að það væri eðlilegra og heppilegra og hreinlegra að gera það með tveimur umferðum. Það væri hreinlegra að gera það með tveimur umferðum frekar en með svokallaðri forgangsröðunaraðferð. Það má fara mörgum orðum um þetta en ég held að það sé allt annað að fólk velji þegar verið er að kjósa í eitt embætti með því að setja menn í sæti eitt, tvö eða þrjú eða eitthvað þess háttar. Ég held að hættan sé sú að við fáum þá forseta sem er frekar lægsti samnefnarinn en einhver sem meiri hluti kjósenda vill styðja í það embætti. En svo vil ég bara taka það fram að slíkar aðferðir, sem miða að því að knýja fram meirihlutavilja bak við forseta, gefa auðvitað til kynna að forsetaembættið sé mikið valdaembætti en svo er auðvitað ekki. Jafnvel þó að þessar tillögur nái fram að ganga þá er ekki um það að ræða. Mér finnst að með svona æfingum í kringum þetta sé verið að leggja óþarfafyrirhöfn við forsetakjör miðað við eðli embættisins og líka miðað við þá reynslu sem við höfum af forsetakjöri á lýðveldistímanum, sem hefur stundum skilað því að forseti er kjörinn án þess að hafa meiri hluta á bak við sig en að jafnaði verið fremur farsælt val þegar til lengri tíma er litið.

Við getum farið í alls konar æfingar í huganum um það hvort einhverjar forsetakosningar í fortíðinni hefðu farið öðruvísi ef aðferðum af þessu tagi hefði verið beitt. Ég segi: Mér finnst þarna akkúrat verið að breyta hlutum sem ekki þarf að breyta. Það er engin sérstök þörf á breytingu. Sama á við um kjörtímabilið. Það að lengja kjörtímabilið úr fjórum árum í sex er í sjálfu sér smekksatriði frekar en að það séu einhver vísindi á bak við þá niðurstöðu. Ég sé ekki að það sé vandamál að kjörtímabilið sé fjögur ár, alveg óþarfi að lengja það í sex en í sjálfu sér enginn sérstakur skaði af því. Hins vegar verð ég að lýsa yfir andstöðu við þá breytingu að kjörtímabilin geti bara verið tvö samfellt. Það eru til reglur í löndum í kringum okkur, Bandaríkjunum, Frakklandi, jafnvel fleiri löndum, þar sem forsetaembættið er mjög valdamikið, þar sem því eru settar skorður að einn maður geti gegnt svo valdamiklu embætti í of langan tíma. Þær aðstæður eiga ekki með neinum hætti við hér á landi. Þarna er verið að setja inn reglu sem á að fyrirbyggja valdasamþjöppun hjá einum einstaklingi þar sem slík hætta er ekki fyrir hendi vegna annarra þátta.

Nú verð ég enn að spýta í og hoppa beint í 8. gr. þar sem fjallað er um stjórnarmyndun. Það er allt í lagi að standa við fyrri part ákvæðisins. Ég velti hins vegar fyrir mér því sem segir í niðurlagi ákvæðisins þar sem talað er um að forseta sé heimilt að óska eftir yfirlýsingu Alþingis um stuðning eða hlutleysi áður en ný ríkisstjórn er skipuð. Þarna er einhver hugsun, eitthvað farið í áttina að svokölluðu jákvæðu þingræði þar sem ný ríkisstjórn þarf að sækja sér fyrir fram umboð þingsins. Þó er ekki farið alla leið og ekkert útfært hvernig þetta á að gerast. Hver á að koma til þingsins og leggja fram tillögu um ríkisstjórn, hvernig á að meðhöndla það í þinginu o.s.frv.? Mér finnst eins og þarna sé verið að varpa upp hugmynd án þess að móta hana, án þess að fullklára málið og ég myndi lýsa yfir miklum efasemdum um þetta á þessu stigi.

Næst staldra ég við í 10. gr., niðurlagsákvæðið, þar sem segir að forsætisráðherra hafi umsjón með störfum og stefnu ríkisstjórnar og samhæfi aðgerðir ráðherra ef á þarf að halda. Einhverjir myndu segja að þetta væri það sem forsætisráðherra gerði í dag og ætti að gera. Spurningin er: Af hverju þarf að taka það fram í stjórnarskrá? Af hverju þarf þetta að vera í texta stjórnarskrár? Ég efast um það og ég efast líka um það sem kemur fram í greinargerðinni um þetta þar sem vísað er í stjórnarráðslögin frá 2011, sem ég tek fram að ég var á móti; ég var á móti mörgum þeim breytingum sem þá voru ákveðnar. Það að fylgja eftir stefnu sem var mörkuð með stjórnarráðslögunum 2011 verkar frekar illa á mig en vel, þannig að það sé sagt.

Í lokin, svo að ég hlaupi enn hratt yfir sögu, vildi ég gera athugasemdir við atriði sem varða starfsstjórn, þ.e. þegar talað er um hér að starfsstjórn geti bara gert það sem nauðsynlegt er þá held ég að menn séu að búa til grátt svæði. Í dag er það þannig að starfsstjórn hefur stjórnskipulega sömu heimildir og hver önnur ríkisstjórn. Ráðherra í starfsstjórn hefur sömu stjórnskipulegu heimildir og sömu ábyrgð og ráðherra endranær. Þarna er verið að búa til einhverja óþarfa óvissu, finnst mér. (Forseti hringir.) Síðan er forseti byrjaður að banka þannig að ég verð sennilega að tala um þingrofið í síðari ræðu.