151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[14:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður kom inn á forsetakaflann í upphafi ræðu sinnar og talaði dálítið mikið um hann, hvernig núverandi fyrirkomulag ætti að vera skýrt en væri það í rauninni ekki. Það sem við höfum séð er að forseti tekur sér það vald sem stendur með skýrum stöfum í ákveðnum greinum án tillits til annarra greina varðandi það t.d. að hafna löggjöf. Það væri alveg hægt að skilja þá grein þannig að ef ráðherra hafnar löggjöf sé hann með ígildi forsetavaldsins á sama hátt og í öðrum greinum er vísað til þjóðaratkvæðagreiðslu. Sama varðandi það að forseti geti hafnað þingrofi, sem forseti hefur einmitt gert. Af hverju er það ekki á fullu forræði ráðherra að beita því samkvæmt núverandi stjórnarskrá og samkvæmt þeim orðum sem eru notuð og skilin í því samhengi sem þar er?

Þingmaðurinn sagði að þetta frumvarp næði ekki þeim árangri að skýra þessa vankanta í forsetakaflanum en nefndi engin sérstök dæmi um hvernig, hvar óskýrleikinn væri. Mér fannst það skorta í ræðu hv. þingmanns og átta mig ekki alveg á því hvernig þau ákvæði sem er að finna hér eru óskýr. Ef hv. þingmaður gæti farið aðeins yfir það þá væri það vel þegið.

Að lokum, í fyrra andsvari alla vega: Hv. þingmaður vildi frekar tvær umferðir en forgangsröðun en forgangsröðun er mjög þekkt aðferð til þess að spara tvær umferðir og ákveðinn kostnað og ýmislegt svoleiðis sem því kosningaumstangi fylgir. Og kannski á praktískum forsendum fjárlaga má spyrja (Forseti hringir.) hvort ekki væri ráð að nýta þær atkvæðagreiðsluaðferðir sem við höfum og þekkjum og eru nýttar víða um heiminn til þess að spara okkur fjármagn.