151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[14:51]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst örstutt um það síðasta: Ég get lifað við ákvæðið eins og það er í dag varðandi forsetakjör. Ég sé ekki ástæðu til að breyta því. Vilji menn með einhverjum hætti knýja fram meirihlutastuðning á bak við forsetakjör þá er það mín skoðun að heppilegra sé að gera það með tveimur umferðum en með forgangsröðun. Ég held að ákvarðanataka kjósenda sé öðruvísi þegar þeir standa frammi fyrir tveimur valkostum en þegar þeir eru að raða mönnum einn, tveir, þrír, fjórir eða eitthvað þess háttar. Ég held, og ég nefndi það í ræðu minni upphaflega, að þetta geti orðið til þess að niðurstaða forsetakjörs verði einhvers konar neikvætt val þar sem menn eru að hafna hinum og þessum forsetaefnum og enda með lægsta samnefnara, einhvern sem enginn er sennilega spenntur fyrir og enginn styður neitt sérstaklega. Ég held að það sé hættan varðandi forgangsröðunarákvæðið.

Varðandi annað atriði sem hv. þingmaður nefndi þá var ég að reyna að orða þá hugsun, og hef ábyggilega ekki gert með nægilega skýrum hætti, að rökin fyrir því að breyta forsetakaflanum hafi fyrst og fremst verið þau að það þyrfti að skýra þennan þátt annars vegar þar sem forseti hefur í orði kveðnu einhver völd og svo hins vegar þegar þau völd eru í raun tekin af honum með öðrum ákvæðum eins og um ábyrgðarleysi forseta, ábyrgð ráðherra á stjórnarframkvæmdum og að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt. Sú mótsögn, ef menn vilja líta svo á, stendur áfram miðað við þetta frumvarp í mörgum efnum. Ég tel því að frumvarpið hafi ekki náð tilgangi sínum að þessu leyti.

Síðan get ég verið sammála eða ósammála hv. þingmanni um það hvernig best væri að ganga frá þessu. En ég tek fram að ef ekki er tekist á við mótsögnina varðandi forsetaembættið þá sé ég enga sérstaka ástæðu til að eiga við kaflann.