151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[15:05]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Umræður um stjórnarskrá lýðveldisins eru ekki nýjar af nálinni. Allt frá lýðveldisstofnun hefur fólk haft skoðanir á helstu málum og velt vöngum yfir því hvort stjórnarskráin þjónaði upphaflegum markmiðum sínum, hvort ný markmiðssetning væri tímabær eða hvort plaggið allt ætti að fara í gegnum einhvers konar heildarendurskoðun. Auðvitað kalla nýir tímar á ný viðhorf og ný viðfangsefni og viðhorf sem þóttu kannski sjálfsögð fyrir einhverjum áratugum þykja úrelt í dag. Verkefni sem engum datt áður í hug eru verkefni nútímans og svo eru verkefni gærdagsins jafnvel úrelt, og kannski meira fyrir sagnfræðinga að velta fyrir sér en fyrir framsýnt 21. aldar fólk.

Hér liggur fyrir frumvarp sem við erum að ræða, frumvarp hæstv. forsætisráðherra, og ég held að mikilvægt sé að taka fram að það kemur ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti. Það sprettur ekki af engu. Það kemur út úr viðamikilli vinnu sem hefur farið fram í ráðuneytinu undir forystu hæstv. ráðherra þó að lendingin sé sú, eins og raunar hefur gerst áður, að það sé hæstv. forsætisráðherra einn sem leggur málið fram.

Ég nefndi vinnuna sem hefur farið í málið. Fjölmargir fundir hafa verið haldnir á kjörtímabilinu, 25 fundir með öllum formönnunum, skilst mér, og málið hefur þess utan verið töluvert mikið rætt. Menn hafa mikið rætt um að lítið gangi í þessari vinnu og verkefnið sé óyfirstíganlegt. En þá má alveg velta fyrir sér: Er eðlilegt að það gangi tiltölulega greitt og auðveldlega fyrir sig að breyta stjórnarskrá eða á það verk í eðli sínu að vera erfitt, vel undirbúið og mikið rætt? Ég hallast að síðari skoðuninni, þ.e. að stjórnarskrá sé þvílíkt grundvallarplagg að við getum varla breytt henni öðruvísi en að fram hafi farið mikil umræða og um það sé tiltölulega víðtæk samstaða í samfélaginu. Menn hafa stundum líkt því að breyta heilli stjórnarskrá á einu bretti við það að ætla að éta fíl í einum bita. Þó að sú samlíking sé kannski svolítið ankannaleg þá held ég að það sé samt þannig að það geti varla verið annað en skynsamlegt að reyna með einhverju móti að setja niður fyrir sér verkefnið, búta það niður í hluta þannig að við getum raunverulega leyst einhvern hluta þess og haldið síðan áfram. Mér sýnist að það sé það sem kemur fram í þessu frumvarpi. Þar eru stigin skref, mjög ákveðin skref og mikilvæg, sem færa okkur fram veginn, sem færa okkur ákvæði sem skipta virkilega miklu máli.

Annars vegar eru þetta ákvæði eins og hv. 2. þm. Norðaust., Steingrímur J. Sigfússon, kom inn á hér áðan og ég get í raun tekið undir allt sem hann sagði. Þau ákvæði sem snúa beint að þinginu eru til skýringar og mörg hver til mikilla bóta. Síðan eru ákvæði um forseta Íslands sem ég tel að séu skynsamleg og loks þrjú ný ákvæði, sem menn hafa nokkuð rætt, þ.e. náttúruverndarákvæði, auðlindaákvæði og ákvæði um íslenska tungu. Mér finnst öll þessi ákvæði mikilsverð og mér finnst skipta máli að þau fái góða umfjöllun hér í þinginu. Ég held að það sé algjört grundvallaratriði að þingmenn setji sjálfum sér það fyrir að taka efnislega umræðu um þessi atriði, festast ekki í forminu heldur reyna að taka efnislegu umræðuna, því að Alþingi Íslendinga hefur þetta verkefni. Það er verkefni Alþingis Íslendinga að taka við stjórnarskrárbreytingum, ræða þær og afgreiða.

Ef við tökum bara mál eins og auðlindaákvæðið þá er það ákvæði sem menn hafa verið að ræða frá 1982 eða þar um bil (Gripið fram í: Lengur.) eða jafnvel lengur. En ég held það hafi fyrst verið rætt sem þingmál 1982, ef ég man rétt. Það er dágóður tími og auðvitað hefur þetta verið fært í orð fyrr. Nú þykir mér a.m.k. tímabært að við reynum að lenda þeirri umræðu, annaðhvort hreinlega með því að þingið hafni þessum breytingum eða þá með því að gera þær sem eru í boði á einhvern hátt betri. Það er í sjálfu sér ekki hægt að útiloka að hv. þingnefnd komist að annarri niðurstöðu um orðalag en innihaldið verði í grundvallaratriðum eins og það er. Það sama á við um auðlindaákvæðið, það hefur verið rætt lengi. Einhver orðaði það svo hér um daginn að þó að búið væri að ræða mál lengi væri ekki þar með sagt að umræðunni væri lokið. Auðvitað er það ekki svo, en menn verða samt sem áður að einhenda sér í efnislegu umræðuna um ákvæðin og reyna að komast að einhverri niðurstöðu.

Við skulum átta okkur á því að innan auðlindaákvæðis þurfa að rúmast allar auðlindir, þ.e. þær auðlindir sem við sjáum fyrir okkur í dag, sem við sem samfélag erum að nýta í dag og líka þær sem samfélag framtíðarinnar mun nýta eða finna eða átta sig á að eru auðlindir. Þess vegna er það ákvæði sem er lagt fram hér að mínu mati að mörgu leyti betra en mörg þau sem hafa verið lögð fram áður. Áskilnaður um gjaldtöku er mjög mikilvægur, áskilnaður um gjaldtöku vegna nýtingar í ábataskyni er enn mikilvægari. Við sem samfélag höfum í raun löngu ákveðið að við ætlum ekki að láta hörðustu markaðssjónarmið ríkja um nýtingu allra auðlinda. Hvað með heita vatnið, hvað með rafmagnið, svo að tvö dæmi séu nefnd? Hvað með kalda vatnið? Þetta eru allt auðlindir. Þetta eru mikilsverðar auðlindir í náttúru Íslands og ég hef alla vega hingað til talið að þokkalega góð samstaða hafi verið um það á Íslandi að þær auðlindir ætti ekki að verðleggja á hæsta mögulega verði. Ég hef alla vega ekki orðið var við annað. En síðan kunna önnur sjónarmið að gilda um aðrar auðlindir sem menn hagnýta fyrst og fremst í atvinnuskyni og þá er mikilvægt að stjórnarskráin leggi ekki stein í götu löggjafans í því að taka ákvörðun um með hvaða hætti gjaldtakan eigi að vera, og sjónarmið um gjaldtöku geta líka breyst frá tíma til tíma. Ég held því að það sé mjög mikilvægt að við tökum á þessu og lendum því. Ég held að það sé kannski meginmálið.

Ákvæði um forseta Íslands eru mjög áhugaverð. Mér finnst vangaveltur um svokallaða forgangsröðunaraðferð við kjör forseta, þar sem tryggt verður að sá sem á endanum verður kjörinn njóti a.m.k. í einhverju stuðnings yfir helmings þeirra sem greiða atkvæði, áhugaverðar. Mér finnst það vera mjög áhugaverð nálgun, og þetta er gert í fleiri löndum. Þetta er til að mynda gert í kosningum til öldungadeildar í sumum ríkjum Bandaríkjanna og, ef ég man rétt, í forsetakosningum á Írlandi og vafalítið víðar. Ég geri í sjálfu sér ekki sérstakan ágreining um að sett verði tímamörk á hversu oft forseti Íslands getur boðið sig fram en mér finnst það að kjörtímabilið verði sex ár vera ágætismerki. Það setur í mínum huga svolítið annan blæ á það embætti en t.d. kjör til Alþingis eða sveitarstjórna, sem ég tel vera ágætt.

Ég er líka sammála því að það er löngu tímabært að taka inn það sem mun heita 81. gr., eða c-liður 22. gr. frumvarpsins, um íslensku sem ríkismál og íslenskt táknmál sem tungumál þeirra sem reiða sig á það til tjáningar. Mér finnst það skipta miklu máli að við sem þjóðríki, með þetta litla mál, litla tungumál og fámenna málsvæði, setjum það a.m.k. einhvers staðar í letur að við sem þjóð ætlum í alvöru að vernda tunguna og styðja. Það skiptir töluverðu máli.

Virðulegi forseti. Ég horfi bjartsýnn á þá vinnu sem mun fara fram í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég vona innilega að nefndin skoði og reifi af fullri alvöru þau sjónarmið sem hafa komið fram í umræðum hér í þinginu, skoði og reifi almennilega þau sjónarmið sem koma fram í umsögnum og skili síðan þinginu, eða þessum sal, aftur frumvarpi sem eru þá góðar líkur á að menn geti náð saman um. Mér finnst að við skuldum ekki bara þessu þingi að slík vinna gangi eftir heldur skuldum við allri þjóðinni að við náum einhverjum áföngum í því að klára þessi stjórnarskrármál. Tíminn verður að leiða í ljós hvort menn ná samstöðu um allt frumvarpið eða hluta af því en aðalatriðið er að nú erum við byrjuð á þessu verki. Við skulum stíga alvöruskref fram á við og lenda málum í þinginu. Svo er hægt að halda áfram, eins og ég nefndi hér í upphafi, við að éta niður fílinn.