151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[15:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

(Forseti (BN): Fyrirgefið, forseti gleymdi sér augnablik.)

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa truflað forseta, hann var að semja vísu hér eða eitthvað álíka. [Hlátur í þingsal.] — En vegna ummæla hv. þm. Guðmundar Andra Thorssonar vildi ég taka það fram að orðalag þeirrar spurningar sem spurt var í þjóðaratkvæðagreiðslunni haustið 2012 var ekki tilviljun. Þar var spurt: Viltu að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi? — Ekki til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Það gerðu sér allir grein fyrir að það gat ekki orðið, heldur frumvarpi að nýrri stjórnarskrá og tekið fram á kjörseðlinum að slíkt frumvarp myndi síðan fá þá þinglegu meðferð sem frumvörp fá að jafnaði hér. Það þýðir að þau geta tekið breytingum. Þau geta náð fram að ganga eða dáið drottni sínum, annaðhvort með atkvæðagreiðslu eða með öðrum hætti eins og hv. þingmenn þekkja. Með öðrum orðum, það gerðu sér allir grein fyrir því að sú þjóðaratkvæðagreiðsla, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla, var ekki endapunktur á einu eða neinu, heldur liður í einhverju ferli. Þetta var jafnvel skýrt af hálfu þeirra sem börðust fyrir því að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram. Ef hv. þingmaður getur gefið sér tíma til að skoða umræður í þinginu á þeim tíma, nefndarálit og annað þess háttar, þá glöggvar hann sig auðvitað á því að þarna var um að ræða lið í einhverri vinnslu, einhverju ferli, sem batt menn ekkert umfram það sem fram kom á þeim tíma. (Gripið fram í.) Það batt menn ekkert umfram það með einum eða neinum hætti og ástæðulaust að láta eins og þar hafi í raun og veru komið einhver boðorð ofan af Sínaífjalli sem ekki megi breyta frá.