151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[15:52]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, mér er það ljóst að þetta var liður í ferli og það var eiginlega inntak ræðu minnar að hér hefur verið ferli sem enn hjarir og ég tel að beri að halda í heiðri og það beri að fara eftir þessu ferli. Ég talaði um það í ræðu minni að eftir að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar komu hafi ráðamenn verið að klóra sér í hausnum yfir því hvernig þeir gætu farið að því að fara ekki að þeim niðurstöðum. En ég hafði nú satt að segja ekki hugmyndaflug til að átta mig á því eða var ekki nægilega glöggur að átta mig á því, eins og hv. þingmaður benti á, að það hafi beinlínis verið í orðalagi, það hafi verið innbyggt í orðalag spurningarinnar sjálfrar að ekki þyrfti að fara að niðurstöðum hennar. Ég hef staðið í þeirri trú að menn vilji almennt fara að niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna, menn vilji virða það sem kemur fram í þjóðaratkvæðagreiðslum, en það eru greinilega ekki allir sem deila þeirri skoðun með mér.