151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[15:54]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér mikilvæga og góða tilraun til að laða fram breytingar á stjórnarskránni. Það er auðvitað í samræmi við gildandi lög eða fyrirkomulag um breytingar eins og þeirra er getið í hinni umræddu stjórnarskrá. Mig langar að ræða þrjú, fjögur atriði, ég veit ekki hvort þau hafa komið svo mikið við sögu í þessum umræðum, en mig langar að byrja á almannarétti. Sú tillaga sem nú er lögð fram gerir að verkum að almannaréttur er tryggður og er jafn rétthár eignarrétti. Fólki er áfram frjáls för í lögmætum tilgangi ef það gengur vel um og virðir hagsmuni landeigenda. Þetta vil ég sem útivistarmaður endilega sjá í stjórnarskránni. Þetta kallast á við þjóðlendur sem ég hef grun um að margir útlendingar sperri augun yfir, að hér skuli vera til svona stórar þjóðlendur í samfélagseigu. Það tel ég vera mjög gott. Þetta kallast líka á við þjóðgarða, hvort sem þeir eru einn eða fleiri, og gerir okkur mun auðveldara fyrir að hyggja að lögum um þá og lögum um almannarétt þar sem hann kemur yfir höfuð við sögu. Það er nefnilega þannig líka að umhverfið hefur rétt þó að það sé ekki lífvera. Við setjum okkur reglur og viðmið um þá umgengni þó að förin sé frjáls og virðum þá annað ákvæði sem er í tillögunum frá hæstv. forsætisráðherra, þ.e. um sjálfbærni og þolmörk. Ef við viljum sjálfbærni þá virðum við þolmörk. Þau þarf auðvitað að skilgreina og sýna fram á að þau séu fyrir hendi og séu svona eða hinsegin. En við virðum sjálfbærni og við virðum þolmörk. Þetta er allt til framfara.

Ég kem svo aðeins að forsetanum. Það helgast kannski af því að ég hef aðeins komið að því embætti á sérstakan hátt. Það eru verulegar breytingar, sumar kannski ekki djúpstæðar en margar lagðar til, og kaflinn þar um er breyttur til að endurspegla betur gildandi rétt og síðan efnisbreytingar þar sem viðhorf almennings og lagaframkvæmd eða umfjöllun fræðimanna hafa leitt í ljós ákveðna galla. Ég ætla að fara lauslega yfir nokkur atriði. Kjörtímabilið er lengt í sex ár sem er mjög í mínum anda. Þegar ég var að hyggja að framboði o.s.frv. í þessum dúr talaði ég um að sitja í tvö kjörtímabil sem voru þá átta ár, þannig að ég held að eitt eða tvö kjörtímabil, sem er sex ár á lengd, sé alveg nægilegur tími fyrir forseta til að gera sínar rósir fyrir þjóðina. Einnig að hækka tölu meðmælenda, það er mjög brýnt að gera það. Manni rennur á vissan hátt rifja sumar tilraunir sem eru gerðar til að nota forsetaembættiskosningar eða -framboð til að auglýsa grunnviðhorf sem eiga sér mjög lítinn hljómgrunn meðal þjóðarinnar í skjóli þess að fjöldi meðmælenda er tiltölulega lítill og er mjög gömul tala ef að er gáð. Þá er heimild forseta til að fella niður saksókn og veita undanþágur afnumin, sem ég tel gott. Ákvæði um skipun embættismanna er færð til samræmis við þá meginreglu að fagleg sjónarmið eigi að ráða við skipanir í opinber embætti. Þá er algjört lagaleysi, við köllum það ábyrgðarleysi, lagalegt ábyrgðarleysi, afnumið og er í staðinn bundið við embættisathafnir sem eru framkvæmdar að tillögu og með ábyrgð ráðherra. Þá er ákvæði um myndun og hlutverk ríkisstjórnar skýrt og fært til samræmis við áralanga framkvæmd og hefð í landinu. Og það sem er kannski einna mikilvægast hér, forseta ber að leita til forseta Alþingis og formanna þingflokka áður en hann tekur afstöðu til tillögu forsætisráðherra um þingrof. Það tengist afstöðu þingsins til þessa gjörnings. Málskotsrétturinn, sá umdeildi og að sumum þykir mikilvægur réttur forseta, 26. gr. fræga, bíður endurskoðunar að mestu leyti. Þarna er þó áskilið að ef forseti undirskrifar eða gengur ekki frá sínum málum á fimm dögum, þ.e. 16. gr., þá gengur frumvarp aftur til þingsins.

Þetta eru nokkur atriði. Ég gæti bætt við fleirum, t.d. finnst mér áhugaverð þessi forgangsröðunaraðferð við forsetakjör sem þarna er lögð til. Ástæðan er einfaldlega sú að ég hef ekki skilgreint forseta sem einhvers konar sameiningartákn, ég hef alltaf átt mjög erfitt með að segja það orð. Mér finnst það svo væmið, liggur mér við að segja, að ég hef ekki viljað taka mér það í munn. Ég hef í sem allra stystu máli skilgreint forsetann sem þjóðkjörinn fulltrúa þjóðarinnar inn á við og út á við. Þetta er fulltrúi okkar allra gagnvart okkur öllum og þetta er fulltrúi Íslands á alþjóðavettvangi. Auðvitað er utanríkisráðherra það líka en forseti er það með þeim áskilnaði að þegar hann útskýrir málstað þjóðarinnar er hann ekki að færa fram sínar skoðanir á því heldur ríkjandi skoðun og jafnvel skoðun minni hluta. Hann hefur ekki sjálfstæða utanríkisstefnu eins og stundum hefur verið sagt heldur gerir hann grein fyrir afstöðu Íslendinga í ótal málum, bæði ráðandi og þeim deilum eða umræðum eða afstöðu annarra sem um ræðir í hverju sinni.

Ég vildi koma þessu að hér með forsetann því að mér finnst í stórum dráttum að vel hafi tekist til að leggja fram breytingar á þessum langa og mikla kafla í stjórnarskránni.

Varðandi þingræðisákvæði í stjórnarskrá vil ég taka undir með hæstv. forseta þingsins, Steingrími J. Sigfússyni. Ég vil tengja það hugtakinu sjálfræði, í fyrsta lagi sjálfræði þingmanna. Við vitum að sjálfræði þingmanna á Íslandi er mikið. Við höfum ótakmarkað málfrelsi í raun og veru, getum talað hér endalaust í vissum tilvikum, höfum gríðarlegt tillögufrelsi og málfrelsi í þinginu. Það fer langt yfir 1.000 málsnúmer á einu þingi. Hv. áheyrendur geta rétt ímyndað sér hvernig gengur að vinna úr því á 34 vikum eða svo. Þetta tengist auðvitað fjölda þingmanna, sem eru í raun og veru 52, og þeir vinna þá vinnu að mestu leyti sem þar liggur að baki þannig að maður fer stundum að hugsa upphátt fyrir fjölgun þingmanna. En þetta er auðvitað ekki stjórnarskrármál, sem ég er hér að benda á, þetta eru þingsköp. En ég tengi þetta beint. Úr því að þingmenn hafa mikið sjálfræði hefur þingið sjálft sjálfræði. Það felst í því að geta vélað um þingrof þegar svo ber undir. Ég hef nefnt það áður að ég styð mjög þá útgáfu af umfjöllun um þingrof að það sé mjög skýrt hverjir beri ábyrgð þar.

Þetta eru mín meginatriði, herra forseti, að þessu sinni. Ég styð þessa tilraun til að betrumbæta stjórnarskrána úr því að ekki tókst að afla fylgis allra flokka á þingi við einhverja annars konar útgáfu af þessum breytingum. Hvað sem verður gert á næstu árum til að endurskoða og jafnvel endursemja stjórnarskrána eða a.m.k. hluta hennar, þá eru hér framfaraskref fram undan ef þessar tillögur ná fram að ganga í þinginu. Það ferli þekkjum við svo, með að rjúfa þing þar á eftir og efna til nýrra kosninga eins og stjórnarskráin segir til um.

Þetta ferli hófst með vinnu við stjórnarskrána með stjórnlagaráði og síðan í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, og hefur sín sérkenni, svo að ekki sé meira sagt, en ég ætla ekki að fara út í þá sálma hér. Ég segi einfaldlega: Tilraunin nú er fyllilega verjandi, fyllilega gerð til að bæta úr göllum á stjórnarskránni. Hún er fyllilega í samræmi við þá ætlan að nútímavæða íslensku stjórnarskrána þótt það verði á endanum í skrefi eða skrefum.

Mig langar að lokum, herra forseti, að vitna í orð sem ég heyrði falla. Ég get ekki heimfært þau á einhvern hv. þingmann, ég er búinn að gleyma því, en ég skrifaði hjá mér orðræðu sem var einhvern veginn svona: Stjórnarskráin er stjórnarskrá þjóðarinnar en ekki Alþingis, með áherslu á ekki. Þetta þótti mér mjög skrýtin setning. Þetta þótti mér eiginlega skelfilega innantómur orðaleikur sem ég veit ekki í raun og veru af hverju er settur fram. Þetta er í ætt við ákveðinn popúlisma, svona vinsældaleik, vegna þess að við getum alveg snúið þessu upp á lög landsins. Ef Alþingi setur þjóðinni lög, eru það þá ekki lög þjóðarinnar? Það er alveg sama hvað Alþingi gerir, hvort Alþingi fari þessa lögformlegu leið og leiðir við breytingu á stjórnarskránni eða setji lög, það er ekkert hægt að skilja á milli Alþingis og þjóðarinnar nema ef Alþingi er að brjóta lög. Þetta voru mín lokaorð, herra forseti.