151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:15]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi gjarnan víkja að stefnu flokks hv. þm. Guðjóns Brjánssonar í stjórnarskrármálefnum. Af því að hann er nú kunnur fyrir ígrundaðan og málefnalegan málflutning vil ég varpa því hér fram að hv. þingmenn flokks hv. þingmanns, Samfylkingarinnar, eru meðflytjendur að stjórnarskrártillögu sem kom fram í haust, og reyndar áður, þar sem gildandi stjórnarskrá, lýðveldisstjórnarskránni sem við köllum, er varpað fyrir róða og innleidd með öllu ný stjórnarskrá ef þetta yrði samþykkt. Nú á flokkur hv. þingmanns sér rætur í Alþýðuflokknum. Ég geri mér grein fyrir því að nú er komið í flokkinn fólk úr fleiri áttum, en flokkurinn skilgreinir sig á alþjóðavísu sem jafnaðarmannaflokk, ef rétt er skilið, og er til að mynda þátttakandi í þingmannahópi jafnaðarmanna í Norðurlandaráði.

Þannig að ég vildi leyfa mér að spyrja hv. þingmann, herra forseti, hvort hann þekki þess dæmi að norrænn jafnaðarmannaflokkur, þess vegna evrópskur jafnaðarmannaflokkur, hafi á friðartímum staðið að jafn róttækri aðgerð og að kollvarpa gildandi stjórnarskrá í vestrænu lýðræðisríki og taka upp alveg nýtt plagg sem stjórnarskrá.