151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:17]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir andsvarið. Við erum að fjalla hér um stórt og mikið mál, breytingar á stjórnarskrá, og eins og ég nefndi í ræðu minni lít ég svo á að breytingar á stjórnarskrá séu ekki dægurmál og að við eigum að fara okkur hægt. Hins vegar höfum við staðið í stað í stórum dráttum og ekki lagt í að gera grundvallarbreytingar á stjórnarskránni frá lýðveldisstofnun. Okkur gafst tækifæri í forsætisráðherratíð og stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að setjast yfir þetta. Það var samþykkt ferli, mjög lýðræðislegt einstakt ferli, enda horft til okkar víða í heiminum og þeirrar vinnu sem við lítum svo á að standi yfir, að við séum í ferli sem enn stendur yfir. Ég held að þetta sé sögulegt í samtímanum. Engin þjóð hefur staðið frammi fyrir því sem við erum að gera núna, ég tel svo ekki vera eftir því sem ég best þekki. Það gerir þetta töluvert einstakt. Við fengum þessa stjórnarskrá að meginhluta til í arf og við eigum að vera ófeimin og djörf að gera okkar eigin stjórnarskrá. Hún liggur fyrir í tillögu og við eigum að vinna út frá henni.