151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:19]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það má leggja út af því með ýmsum hætti. Það er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að það væri vissulega sögulegt ef vestrænt lýðræðisríki myndi á friðartímum gera eins og lagt er til og eins og hv. þingmenn Samfylkingarinnar, og reyndar fleiri flokkar, hafa gert að tillögu sinni hér, að kollvarpa gildandi stjórnarskrá og líta á gildandi stjórnarskrá að einhverju leyti sem ekki okkar, eins og ég held að hv. þingmaður hafi orðað það. Lýðveldisstjórnarskráin var náttúrlega samþykkt með atkvæðum þorra manna 1944, af 95% í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem 98% þjóðarinnar tóku þátt. Síðan hafa verið gerðar veigamiklar breytingar á stjórnarskránni. Það sem einkennt hefur þær breytingar er að að meginstefnu til hafa þær verið gerðar í breiðri sátt og víðtæku samkomulagi á Alþingi. En engin sátt er um þá tillögu sem þingmenn flokks hv. þingmanns og fleiri hafa lagt fram. Þess vegna vil ég spyrja hann hvort hann sé í raun og veru ánægður með þá málsmeðferð að leggja upp með breytingar á stjórnarskrá þar sem vikið er í grundvallaratriðum frá þeirri íslensku hefð sem ég vil leyfa mér að segja að hafi ríkt, (Forseti hringir.) að breytingar á stjórnarskrá séu ákveðnar og teknar eftir (Forseti hringir.) víðtækt samstarf á breiðum grundvelli.