151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:22]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni síðara andsvar. Það er rétt, þó að ég sé ekki söguglöggur maður, að stjórnarskrá okkar, sem við búum við í meginatriðum þó að fjölmargar breytingar hafi verið gerðar á henni í gegnum lýðveldissöguna, var auðvitað samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta. En hún átti að vera lausn til skemmri tíma. Meiningin var að fara í það að gera okkar nýju góðu stjórnarskrá við fyrsta hentugleika, en það hefur dregist þetta lengi. Hvort þetta er rétti tíminn og hvort það er einstakt, ábyrgt eða óábyrgt að fara í að kollvarpa stjórnarskránni á friðartímum veit ég ekki. Menn gera mikið úr því að hér hafi skapast sú hefð að menn vilji gera breytingar á stjórnarskránni í einhverri gríðarlega mikilli sátt. Það var sátt um að skipa stjórnlagaráð, það ferli var gert í sátt. Það var sátt um að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það varð að veruleika. Síðan kom tillagan inn í þingið og rataði sína grýttu slóð. Kannski er það bjartsýni að svona miklar breytingar séu framkvæmdar í gríðarlega mikilli sátt. Það er kannski óraunsæi. En þessi stjórnarskrá sem við tökumst (Forseti hringir.) á um, tillagan sem liggur fyrir frá stjórnlagaráði (Forseti hringir.) — svo segja menn að ekki sé verið kollvarpa núverandi stjórnarskrá heldur sé verið að uppfæra hana.