151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:24]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði að eiga orðastað við hv. þm. Guðjón Brjánsson um frumvarpið sem er til umræðu hér í dag, en vegna þess að hann kom lítið inn á það í ræðu sinni þá ætla ég að fjalla um aðra þætti í andsvari mínu. Í fyrsta lagi vil ég nefna, af því að hann vék að því stjórnarskrárbreytingaferli sem komið var af stað í ríkisstjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur, að það var mjög umdeilt. Flestir þættir í því voru mjög umdeildir. Það er rétt að rifja upp að þrátt fyrir að í ákveðnum helgisögnum Stjórnarskrárfélagsins og kannski innan Samfylkingarinnar séu hlutirnir öðruvísi, þá var þetta eitt allsherjarklúður frá upphafi til enda, eitt allsherjarklúður. Það birtist m.a. í því að í stjórnlagaþingskosningu sem hér var haldin 2010 var minnsta kosningaþátttaka í allri Íslandssögunni, 37% kjósenda kusu. Það var klúður út af fyrir sig. Síðan voru þannig gallar á framkvæmdinni að kosningin var dæmd ólögmæt af Hæstarétti. Sex hæstaréttardómarar komust sameiginlega að þeirri niðurstöðu að kosningin væri ógild. Þá var farið út í að skipa stjórnlagaráð í mjög umdeildu ferli í þinginu. Svo var farið út í mjög umdeilda þjóðaratkvæðagreiðslu, mjög umdeilda, sem að mínu mati fullnægði engum kröfum til þjóðaratkvæðagreiðslna, en við getum farið yfir það í löngu máli. Kosningaþátttakan var innan við helmingur, kosningaþátttaka í öðrum þjóðaratkvæðagreiðslum á lýðveldistímanum hefur verið mun meiri. Síðan endaði þetta ferli allt saman úti í einhverjum skurði vorið 2013. Menn draga það upp með ýmsum hætti en að lýsa þessu sem einhverju góðu ferli sem hafi verið í sátt er mjög röng lýsing að mínu mati.