151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:26]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Bestu þakkir fyrir andsvarið. Hv. þm. Birgir Ármannsson er í essinu sínu, holdgervingur seinagangs og þvergirðinga í sambandi við allar breytingar á þessu mikilvæga máli, stjórnarskránni. Hann gerir lítið úr því merkilega ferli sem átt hefur sér stað í sambandi við gerð af nýrri stjórnarskrá og telur að það hafi verið umdeilt. Það er rétt. Það voru margir sem settu fótinn fyrir það. En það var þó einkum í þröngum kreðsum sem það gerðist. Ef ég man rétt var það fyrst og fremst einn stjórnmálaflokkur. Að þátttakan hafi verið lítil í þjóðaratkvæðagreiðslunni er rétt, hún var í lægri mörkum, en það er ekkert sem segir að hún hafi ekki verið marktæk og samkvæmt tölfræði var hún það gjörsamlega. Kosningarnar voru gerðar ógildar. Var það á mjög sterkum rökum reist? Mér skilst að það hafi verið m.a. vegna þess að þilin á milli kjörklefa hafi verið of þunn. (BÁ: Seðlarnir voru rekjanlegir.) Áfram heldur hv. þingmaður með úrtöluraddirnar, úrtöluraddir; ekki breyta, halda í þetta, halda í gömlu stjórnarskrána, engar breytingar. Við erum að tala um völd.